Heildsöluverð mjólkur hækkar um 2,5%

AFP

Verðlagsnefnd búvara hefur ákveðið að hækka heildsöluverð á mjólk og mjólkurafurðum um 2,5% 1. júlí næstkomandi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá verðlagsnefndinni á vef atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins.

Segir þar að með þessari samhljóða ákvörðun muni mjólkurverð til bænda hækka um 1,77 kr. á hvern lítra. Verð á undanrennu- og mjólkurdufti lækkar hins vegar um 20% til að mæta áhrifum nýs tollasamnings við Evrópusambandið og lækkunar heimsmarkaðsverðs á dufti. Er því vegin meðaltalshækkun 2,1%. Skiptist kostnaðurinn við lækkunina jafnt á milli bænda og mjólkuriðnaðarins eftir því sem kemur fram á vef ráðuneytisins.

Verður afurðastöðvaverð til bænda þá nú 86,16 kr. Vinnslu- og dreifingarkostnaður mjólkur hækkar um 1,81 kr. og er því samanlögð hækkun heildsöluverðs 3,58 kr. á hvern lítra mjólkur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert