Lagði hald á afmælisgjafir

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði á föstudag íslenska ríkið af miskabótakröfu karlmanns, en lögreglan lagði hald á tvær áfengisflöskur sem hann hafði fengið að gjöf í afmæli sínu á skemmtistaðnum Gauki á Stöng í febrúar 2013.

Dómurinn féllst á það með manninum að afskipti lögreglu af honum umrædda nótt og haldlagning flasknanna hefði valdið honum ónæði, en eins og atvikum málsins væri háttað yrði þó ekki talið að maðurinn hefði sýnt fram á að hann hafi orðið fyrir miska og eigi af þeim sökum rétt á miskabótum.

Ástæður þess að lögreglan lagði hald á umræddar áfengisflöskur voru grunur um að verið væri að bera áfengi út af skemmtistað sem væri brot á áfengislöggjöf. Maðurinn var ásamt tveimur félögum stöðvaður af lögreglu nokkru eftir miðnætti, þegar hann kom út af staðnum niður brunastiga á bakhliðinni.

„Ástæða þess að lögregla stöðvaði mennina var sú að það hefði vakið athygli hennar að félagi stefnanda hélt á plastpoka með áfengisflöskum. Lögregla lagði hald á flöskurnar. Er óumdeilt að flöskurnar voru í eigu stefnanda og að þær hafi hann fengið að gjöf í tilefni afmælis hans sem hann fagnaði á veitingastaðnum umrætt kvöld. Engin handtaka fór fram og stefnandi fékk áfengisflöskurnar afhentar rúmum tveimur mánuðum síðar eða þann 20. mars 2013,“ segir í dómnum.

Dómurinn taldi að haldlagning afmælisgjafa mannsins hafi valdið honum ónæði, eins og áður sagði, en að maðurinn hafi ekki sýnt fram á að hann hafi orðið fyrir miska.

Var ríkið því sýknað af kröfum mannsins.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert