Miðasalan: Hvar og hvenær?

Ísland mætir Frakklandi í átta liða úrslitum EM á sunnudaginn. …
Ísland mætir Frakklandi í átta liða úrslitum EM á sunnudaginn. Ætlar þú að vera í stúkunni? AFP

Miðasala á leik Íslands og Frakklands sem fram fer á sunnudaginn hefst klukkan 12 á hádegi í dag, en þar mun gilda fyrstur kemur, fyrstur fær, óháð þjóðerni. Það má því gera ráð fyrir gríðarlegum áhuga þegar salan hefst, enda er Ísland að mæta gestgjöfunum og mjög mikill áhugi er meðal heimamanna á leiknum.

Þótt leikurinn fari fram á þjóðarleikvangi Frakka, Stade de France, sem tekur rúmlega 81 þúsund manns í sæti, eru allar líkur á því að uppselt verði mjög fljótt á leikinn. Þeir Íslendingar sem ætla sér að kaupa miða á leikinn þurfa því að hafa hraðar hendur til að næla sér í miða og í framhaldi af því að kaupa flugmiða og gistingu í París. 

Miðasöluvefur UEFA

Formleg miðasala fer fram á vef UEFA og hefst hún eins og fyrr segir klukkan 12.00 á hádegi. Aftur á móti er hægt að fara í röð í miðasölunni klukkan 11:45 og má telja víst að það sé nauðsynlegt ef fólk vill eiga möguleika á að fá miða.

Fyrir þann tíma er ekki vitlaust að líklegir kaupendur útbúi aðgang á síðu miðasölunnar. Þegar klukkan er 11:45 er svo smellt á „Ticket portal“-boxið neðarlega fyrir miðju á síðunni og haldið áfram þaðan í miðakaupsferlinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert