Guðni Th.: Stærsta stund íþróttasögunnar

Guðni Th. var vinsæll hjá stuðningsmönnum Íslands í Nice.
Guðni Th. var vinsæll hjá stuðningsmönnum Íslands í Nice. mbl.is/Golli

Þegar Englendingar komust yfir strax í byrjun á móti Íslendingum leið Guðna Th. Jóhannessyni aðeins eins og þegar fyrstu tölur bárust í forsetakosningunum. Sigur Íslands var aftur á móti ógleymanleg stund og segir Guðni hann vera stærstu stund íslenskrar íþróttasögu.

Nýkjörinn forseti Íslands var á meðal þúsunda Íslendinga í stúkunni á leikvellinum í Nice í gærkvöldi þegar íslenska karlalandsliðið vann sögulegan sigur á því enska í 16-liða úrslitum Evrópumótsins í knattspyrnu í Frakklandi.

„Það er stundum erfitt að bera saman afrek í íþróttasögu á milli ólíkra greina og móta. Samt leyfi ég mér að segja að þetta sé stærsta stund íslenskrar íþróttasögu, þó ekki væri nema vegna þess að hún er heimsfrétt. Það var einstök ánægja og heiður að vera með landanum á vellinum, fagna, gráta gleðitárum, faðma fólk sem maður hefur séð áður og fólk sem maður hefur aldrei séð áður. Íþróttavöllur er frábær vettvangur fyrir ættjarðarást,“ sagði Guðni þegar Mbl.is náði tali af honum í morgun.

Stuðningshrópin þögnuðu aldrei og röddin brast

Ekki blés byrlega fyrir íslenska liðið því Wayne Rooney kom Englendingum yfir með vítaspyrnu strax á fyrstu mínútum leiksins. Guðni viðurkennir að það hafi farið um hann við markið. Honum sjálfum hafi til dæmis liðið eins og þegar fyrstu tölur komu á kosningakvöldinu sem sýndu að mjótt var á mununum á milli hans og Höllu Tómasdóttur.

„Ég var farinn að búa mig undir það versta. Svo jöfnuðu strákarnir og þegar þeir komust yfir þá fann maður að það var mikið eftir en Englendingarnir voru hikandi, fálmkenndir, gerðust stressaðir og meira að segja á pöllunum fannst mér við hafa yfirhöndina. Stuðningshrópin þögnuðu aldrei og maður var með af lífi og sál. Það er á svona stundum sem maður finnur að þjóðir eiga eina sál,“ segir Guðni sem tapaði röddinni þegar Íslendingar komust yfir með marki Kolbeins Sigþórssonar.

Stemningin var gríðarleg á leikvanginum í Nice í gærkvöldi.
Stemningin var gríðarleg á leikvanginum í Nice í gærkvöldi. AFP

Innileg gleði á pöllunum

Guðni sat í almennri stúku með hinum íslensku stuðningsmönnunum en ekki í stúku ætlaðri fyrirmennum enda tekur hann ekki við embætti forseta fyrr en 1. ágúst.

„Mér leyfist þetta ennþá. Ég naut þess mjög að vera svona nærri andrúmsloftinu,“ segir forsetinn nýkjörni.

Íslensku aðdáendurnir tóku Guðna vel og segist hann hafa verið hvort tveggja í senn einn af hópnum og nýkjörinn forseti Íslands.

„Margir vildu taka myndir og óska mér til hamingju. Aftur fann ég fyrir þessum mikla hlýhug sem ég hef orðið vitni að frá því að ég náði kjöri. Við vorum bara öll svo innilega glöð þarna á pöllunum,“ segir hann.

Þarf að breyta áætlunum til að komast til Parísar

Næst mæta Íslendingar heimamönnum í fjórðungsúrslitum á Stade de France í París á sunnudag. Guðni er bjartsýnn á gengi Íslands í þeim leik.

„Miðað við úrslit þessa leiks höfum við ekkert að óttast. Við getum aftur sýnt okkur sjálfum og umheiminum hvað í okkur er spunnið,“ segir Guðni.

Hann segir að sig langi mikið til þess að fara á leikinn í París en til þess að svo megi verða þurfi að breyta ýmsum áætlunum.

„Ég stefni að því að mæta,“ segir Guðni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert