Fögnuðu með ís og blöðrudýrum

Sjálfboðaliðar Rauða krossins í Reykjavík luku annasömum vetri með sumarfagnaði síðastliðinn laugardag við höfuðstöðvar félagsins í Efstaleiti í Reykjavík. Í tilkynningu frá Rauða krossinum segir að þar hafi verið sannkölluð karnivalstemning, með hoppkastala, blöðrudýrum, kandíflossi, ís og grillpylsum. Eins og sjá má á myndunum hér að ofan fór vel á með gestum sem voru á öllum aldri.

„Sjálfboðaliðar deildarinnar eru 750 einstaklingar sem sinna verkefnum til stuðnings innflytjendum og flóttafólki, jaðarsettum hópum og fólki sem býr við margs konar þrengingar,“ segir í tilkynningu Rauða krossins.

„Meðal verkefna Rauða krossins í Reykjavík eru Konukot, athvarf fyrir heimilislausar konur, Vin, athvarf fyrir fólk með geðraskanir, stuðningur við flóttafólk, aðstoð við heimanám innflytjenda, heimsóknir til aldraðra og sjúkra, áfallasjóður, dreifing fatakorta og færanleg heilbrigðisaðstoð í bílnum Frú Ragnheiði.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert