Gullaldarliðið á toppnum á HM

Friðrik Ólafsson og Róbert Lagerman.
Friðrik Ólafsson og Róbert Lagerman. Ljósmynd/Aðsend mynd

Gullaldarlið Íslands vann fjórða sigurinn í röð á HM skáksveita 50 ára og eldri í Dresden í dag. Jón L. Árnason var hetja dagsins, en hann sigraði Gerhard Köhler í 23 leikjum eftir að hafa fórnað mönnum á báðar hendur.

Armenía, Þýskaland og Ísland eru nú einu liðin sem hafa sigrað í öllum viðureignum sínum. Gullaldarliðið mætir sterkri sveit Armeníu í fimmtu umferð.

Íslenska stórmeistarasveitin mætti mjög sterku liði Emanuel Lasker Gesellschaft í fjórðu umferðinni. Á 1. borði gerðu Jóhann Hjartarson og Arthur Jusupov jafntefli, og sama var uppi á teningnum í viðureignum Helga Ólafssonar og Alexanders Graf, og Margeirs Péturssonar og Jakobs Meister.

Jón L. Árnason mætti Köhler á 4. borði, en Þjóðverjinn er þekktastur fyrir að hafa teflt þúsundir hraðskáka við Viktor Korchnoi, þegar hinn mikli meistari dvaldi sér til hressingar á heilsuhæli í Dresden. Jón er einn mesti sóknarskákmaður íslenskrar skáksögu, og hann hélt sannkallaða flugeldasýningu og tryggði íslenska liðinu mjög dýrmætan sigur.

Jón L. Árnason
Jón L. Árnason Ljósmynd/Aðsend mynd

Halldór Grétar Einarsson liðstjóri Gullaldarliðsins var að vonum ánægður með sína menn: „Við vorum að klára að fara yfir skákir dagsins. Það var varla leikinn slæmur leikur í þessari umferð en margir snjallir. Jón L. ruggaði aðeins bátnum til að vinna sinn andstæðing á glæsilegan hátt.“

Af öðrum úrslitum í fjórðu umferð bar hæst að Þýskaland lagði England og Armenía sigraði Kanada.

Í fimmtu umferð mætir Gullaldarliðið Armeníu í sannkölluðum stórleik. Fyrir armensku sveitinni fer goðsögnin Rafael Vaganian sem er þekktur fyrir leiftrandi sóknarstíl og algert óttaleysi við skákborðið.

Alls taka 57 skáksveitir þátt í HM í Dresden og verða tefldar níu umferðir. Margir af þekktustu skákmönnum síðustu áratuga eru meðal keppenda, en óhætt er að segja að þátttaka íslenska Gullaldarliðsins hafi vakið mesta athygli. Auk fjórmenninganna sem héldu uppi heiðri Íslands í dag er Friðrik Ólafsson í liðinu, en þessi síungi snillingur sem nú er 81 árs tefldi fyrst fyrir Íslands hönd á Ólympíumótinu árið 1952.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert