Hjólreiðakeppni í anda maraþonsins

Hópurinn sem stendur að keppninni.
Hópurinn sem stendur að keppninni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Í framhaldi af Reykjavíkurmaraþoninu og framkvæmd þess á undanförnum árum varð til þessi hugmynd að búa til viðburð í hjólreiðum í anda maraþonsins,“ segir Kjartan Ásmundsson, verkefnisstjóri hjá Íþróttabandalagi Reykjavíkur.

Tour of Reykjavík er ný hjólreiðakeppni sem íþróttabandalag Reykjavíkur mun halda þann 10. september næstkomandi. Boðið verður upp á fjölbreyttar hjólaleiðir fyrir alla þá sem áhuga hafa á hjólreiðum en keppnin mun hafa upphaf og endi í Laugardalnum og ýmist hjólað alla leið á Þingvelli eða styttri hringi Í Laugardal og í borginni.

Markmið viðburðarins er þó tvíþætt, annars vegar að almenningur taki virkari þátt í hjólreiðaviðburðum og ekki síður að efla hjólreiðar á afreksstigi hér innanlands. Vonir standa til að erlend þátttaka aukist ár frá ári sem vonandi mun hvetja innlent hjólreiðafólk til dáða. Viðburðurinn er haldinn annan laugardag í september og rás- og endamark er fyrir framan Laugardalshöllina en þar safnast þátttakendur saman fyrir ræsingu. Við Laugardalshöllina verður bæði hægt að skrá sig á staðnum, nýta sér sérfræðiþjónustu starfsmanna helstu hjólaumboða og ef til vill versla það allra nauðsynlegasta.  Leiðirnar verða kynntar þegar nær dregur mótinu sjálfu.

Hafsteinn Ægir Geirsson og Lilja Birgisdóttir,
Hafsteinn Ægir Geirsson og Lilja Birgisdóttir, mbl.is/Eggert Jóhannesson

 Stórskemmtileg viðbót í viðburðaflóruna 

„Mér lýst alveg frábærlega vel á þessa nýju hjólreiðakeppni. Ég held að þetta verði stórskemmtileg viðbót, bæði í viðburðaflóruna en líka til þess að fólk átti sig á því að spölkorn út úr borginni eru alveg magnaðar hjólaleiðir, að vísu frekar erfiðar,“ segir Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, í samtali við mbl.is.

Lilja Birgisdóttir, formaður hjólreiðafélagsins Tinds er einnig ánægð með keppnina. „Þetta er frábært viðburður og algjör forréttindi fyrir okkur hjólreiðafólk að Reykjavíkurborg sé að koma í þetta verkefni með okkur. Við fáum að loka götum Reykjavíkurborgar til þess að fá að halda hjólamót í öruggu umhverfi, bæði öruggu fyrir hjólarana og þeim sem eru að keyra. Þannig að þetta er rosalega stórt skref í heimi hjólreiðanna að við séum að fá að halda hjólamót á lokuðum götum í Reykjavíkur,“ segir Lilja.

Hún segir það hafa verið draum sinn afar lengi að geta stigið þetta skref sem er nú loks orðið að veruleika. „Ég veit ekki hvort almenningur átti sig raunverulega á því hvað þetta er stórt skref að geta gert þetta í svona vernduðu umhverfi eins og lokaðar götur eru fyrir okkur.“

Keppnin fer fram þann 10. september næstkomandi.
Keppnin fer fram þann 10. september næstkomandi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Algjör snilld að fá að halda hjólakeppni inni í borg 

Hafsteinn Ægir Geirsson, hjólreiðamaður, segir það algjöra snilld að fá þessar lokanir í gegn og að fá að halda hjólakeppni sem þessa inni í borginni á lokuðum götum. Hafsteinn Ægir hefur verið í fremstu röðum hjólreiðamanna í um 13 ár og hefur tekið þátt í afar mörgum hjólreiðakeppnum.

 „Þetta er nýtt fyrir mér því við höfum alltaf verið að keppa einhvers staðar lengst út í sveit þar sem það getur enginn komið að horfa á okkur, helst eldsnemma á morgnanna svo við séum að forðast umferð. En að geta fengið að keppa frá höfuðborginni og inn í hana aftur og fara líka út í náttúruna er algjör snilld.“

Heimasíða Tour of Reykjavík 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert