Höfuðábyrgð að tryggja jafnræði

Björn Þorláksson.
Björn Þorláksson. mbl.is/Sigurður Bogi

„Stjórnin gerði allt til að tryggja eigin hag, það liggur alveg fyrir,“ segir Björn Þorláksson blaðamaður sem hafnaði í sjöunda sæti í prófkjöri Pírata í Norðaustur-kjördæmi. Það hafi alls ekki legið á að halda prófkjörið, sem hafi einvörðungu verið auglýst meðal Pírata.

Björn, sem vildi leiða listann, hefur ákveðið að taka ekki sæti á listanum.

Hann skrifaði pistil á Facebook-síðu sína í gær þar sem hann taldi sig hlunnfarinn af prófkjörinu, sem lauk á miðnætti 27. júní sl., og taldi niðurstöðuna í engu samræmi við hvatningu, stuðning og ástæður þess að hann hefði boðið sig fram.

„Það voru örfáir tugir klíkuatkvæða sem vöruðu kerfisbundið við að nýtt blóð fengi brautargengi, þessi atkvæði réðu útkomu prófkjörs þar sem þrír úr stjórn félagsins hér virðast hafa náð þeim tilstyrk sem þurfti til að halda öflugasta fólkinu frá efstu sætum. Einn í hópi þriggja efstu er hæft þingmannsefni, þannig er það nú bara,“ skrifaði hann í gær. 

Vanbúnaður og ójafnfræði

Björn segir í samtali við mbl.is að hann hafi ekki skrifað pistilinn í reiði. Gagnrýnin snúist ekki um hans persónu heldur gallað kerfi og því vilji hann miðla til lærdóms. Hann bendir á að það sé höfuðábyrgð allra stjórnmálaafla að tryggja jafnræði, bæði fyrir frambjóðendur og kjósendur. Það hafi ekki verið gert í umræddu prófkjöri. 

„Um leið og ég gat mætt á fyrsta félagsfund þá verður mér ljóst að aðstæður til að framkvæma þetta prófkjör litast allar af miklum vanbúnaði og, ég vil segja, ójafnræði.“

Björn útskýrir mál sitt nánar og segir að vanbúnaðurinn hafi falist í því að ekkert fé hafi fengist úr sjóðum Pírata til að auglýsa prófkjörið. Það sé afbrot gegn lýðræðinu.

Keyrt í gegn á skömmum tíma

Björn segir ennfremur að prófkjörið hafi verið keyrt í gegn á skömmum tíma án þess að þorri almennings í kjördæminu, sem sé afar víðfeðmt, hafi haft hugmynd um það. Þetta hafi aðeins verið kynnt á netinu, m.a. á spjallsvæði Pírata. Alls hafi aðeins liðið um tvær vikur frá því að tilkynning birtist um að nú væru síðustu forvöð að skrá sig í flokkinn til að taka þátt og þar til tímamörk voru úti. Björn bætir við að fyrst hafi þetta aðeins átt að vera tæp vika.

„Allt þetta ferli á sér stað án þess að nokkur viti af því, því það er bara verið að auglýsa þetta innan Pírata.“

Björn heldur því fram að stjórn Pírata í kjördæminu hafi ætlað sér manna öll efstu sætin á listanum.

„Og sú var niðurstaðan. Þrír stjórnarmenn fengu þrjú efstu sætin. Ég hygg að það sé nokk sama hvað nýtt fólk, burtséð frá því hve öflugt það var og hve mikill liðsauki það hefði getað orðið fyrir hugsjón að breyta því sem breyta þarf á Íslandi almenningi til heilla, ég held að enginn hefði átt séns á að koma inn í þetta partí.“

Heppilegra ef öll kjördæmin hefðu unnið saman

Hann segir að svona vinna krefjist gríðarlegs undirbúnings. Það hefði verið heppilegra ef öll kjördæmi Pírata í landinu hefðu unnið samstillt að þessu átaki.

„Það lá ekkert á. En það er augljóst að framkvæmd prófkjörsins hagnaðist þeim mest sem höfðu lengsta sögu inni í félaginu, og einkum kafteini og þeim sem sátu í stjórn.“

Hann nefnir einnig viðmótið sem nýtt fólk hafi fundið fyrir. „Ég skil alveg ótta Pírata sem hafa unnið hörðum höndum við það að byggja upp flokk sem hefur náð svona mikilli landsathygli. Þótt þingmennirnir séu aðeins þrír þá hefur hann mælst með hátt í 40% í skoðanakönnunum. Ég skil vel að Píratar sem unnið hafa hörðum höndum í grasrótarstarfinu, þeir segi: „Bíddu, nú er ég búinn að ná í þetta hveiti, ég er búinn að baka brauðið, ætlar þú svo að koma og éta það?“.“

Hann kveðst ekki skilja hvers vegna flokkurinn sé ekki opinn öflugu fólki, þ.e. vilji hann ná inn besta fólkinu fyrir komandi þingkosningar og gera róttækar breytingar á Íslandi.

Einnig undrast Björn á því sem hafi verið sagt, að það vinni gegn fólki að vera þekkt þegar það hyggist bjóða sig fram skömmu fyrir kosningar. „Ég myndi vilja spyrja fyrir hvað er fólkið þekkt. Er það þekkt fyrir baráttu sína fyrir almannahagsmunum eða er það þekkt fyrir eitthvað allt annað?“

Undrast tilburði til þöggunar

„Ég bauð mig ekki fram til þess að öðlast völd. Ég bauð mig ekki fram vegna þess að mér fundust launin fyrir þingmennskuna svo frábær. Ég bauð mig fram af því að ég fékk áskorun um það að ég myndi gefa kost á mér.“

Þá segir hann að það hafi verið áhugavert en um leið ónotalegt að fylgjast með þöggunartilburðum, t.d. á Pírataspjallinu, við þessari gagnrýni hans. Það skjóti vissulega skökku við í ljósi þess að Píratar státi sig af gagnsæi og upplýstum ákvörðunum. Píratar ættu því fremur að fagna þeirri gagnrýni sem Björn hafi sett fram, enda megi draga ákveðinn lærdóm af henni. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert