Ísland neðst af Norðurlandaþjóðum

Ísland er í 10-11. sæti af 133 þjóðum þegar kemur …
Ísland er í 10-11. sæti af 133 þjóðum þegar kemur að gæðum samfélagsinnviða. Engu að síður er Ísland neðst af Norðurlandaþjóðunum. Styrmir Kári

Ísland er í 10. sæti af 133 þjóðum á nýjum alþjóðlegum lista yfir gæði samfélagsinnviða. Ísland er með hærrra samanlagt skor en þegar listinn var birtur í fyrra en fer engu að síður niður um sex sæti því önnur lönd hafa bætt sig enn meira. Listinn kallast Social progess index (SPI) og er tekinn saman af stofnuninni Social progress imperative sem hefur aðsetur í Washington og London.

Ísland er neðst Norðurlandaþjóðanna á listanum, en Finnland trónir efst á listanum, Danmörk er í þriðja sæti og Svíþjóð og Noregur í sjötta og sjöunda sæti.

Hugmyndafræðin að baki mælikvarðanum sem listinn byggist á er að setja á oddinn það sem skiptir tilveru fólks mestu máli, þar á meðal eru lífslíkur, aðgangur að heilsugæslu, hagkvæmu húsnæði og menntun og staða jafnréttismála og trúfrelsi.

Í apríl síðastliðnum hélt Social progress imperative alþjóðlega ráðstefnu í Reykjavík þar sem margir af fremstu vísinda- og fræðimönnum heims á sviði samkeppnishæfni þjóða og stefnumótunar fyrirtækja komu saman til að ræða aðferðafræðina að baki SPI-listanum. Meðal þátttakenda voru Michael Porter, prófessor við Harvard-háskóla, Matthew Bishop, ritstjóri alþjóðamála hjá The Economist, Martha Minow, deildarforseti lagadeildar Harvard-háskóla, Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra og Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík.

Í kjölfar ráðstefnunnar skrifuðu Reykjavíkurborg og Social Progress Imperative-stofnunin undir viljayfirlýsingu þess efnis að Reykjavík verði fyrsta borgin í Evrópu til að taka upp SPI-skalann.  

Sjá má efstu lönd listans hér að neðan:

  1. Finnland
  2. Kanada
  3. Danmörk
  4. Ástralía
  5. Sviss
  6. Svíþjóð
  7. Noregur
  8. Holland
  9. Bretland
  10. -11. Ísland og Nýja-Sjáland
    12. Írland
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert