Málefnin sigruðu - ekki persónan

Einar Aðalsteinn Brynjólfsson Pírati.
Einar Aðalsteinn Brynjólfsson Pírati. Ljósmynd/Úr einkasafni

Einar Aðalsteinn Brynjólfsson, framhaldsskólakennari á Akureyri og efsti maður á lista Pírata í Norðaustur-kjördæmi, vísar því á bug að ójafnræði og vanbúnaður hafi ráðið ríkjum í prófkjöri flokksins. „Ég er líka nýliði meðal Pírata, rétt eins og Björn Þorláksson,“ segir Einar.

Málið snýst um gagnrýni sem Björn setti fram á Facebook-síðu sína í gær og einnig í samtali við mbl.is í dag.

Björn sagði m.a. að það hefðu verið „örfáir tugir klíkuatkvæða sem vöruðu kerfisbundið við að nýtt blóð fengi brautargengi“ og að stjórnin hefði gert „allt til að tryggja eigin hag“.

Björn, sem vildi leiða listann, hafnaði í sjöunda sæti. Hann hefur ákveðið að taka ekki sæti á listanum.

„Svo komu Panamaskjöl“

Einar segir í samtali við mbl.is, að hann hafi gengið í raðir Pírata í byrjun ársins og var kosin í stjórn þegar félagið var endurvakið á Norðausturlandi í mars, en þá gerðist hann meðstjórnandi. „Þannig að ég er ekki gamall hundur sem sat á fleti fyrir,“ segir Einar.

Meðal þess sem Björn hefur gagnrýnt er að prófkjörið hafi verið ákveðið í miklum flýti. Einar segir að stjórnin hafi íhugað að halda prófkjör seinni hluta mars.

„Svo komu Panamaskjöl í dagsljósið og allt varð vitlaust. Þá var talað um að kosningar [til Alþingis] yrðu í haust og svo framvegis, sem er svosem ekkert útséð með,“ segir Einar og bætir við að þá hafi menn farið að athuga með að halda prófkjör, en stjórnin vildi jafnframt ljúka því fyrir sumarleyfi.

Prófkjör Pírata eingöngu ætluð félagsmönnum

„Við vorum á þeirri skoðun, og erum það enn, að það hafi verið skynsamlegt, vegna þess að við sáum fyrir okkur að sumarið væri frekar dauður tími og það að hafa prófkjör í haust væri of seint - sérstaklega í landsbyggðarkjördæmunum.“

Þá bætir hann við að almennt ætli Píratar um allt land að hafa lokuð prófkjör, það er að segja að þau séu eingöngu ætluð félagsmönnum á hverjum stað. 

Tekið með sama hætti og Birni

„Mér var tekið með nákvæmlega sama hætti og Birni, frænda mínum, Þorlákssyni þegar hann kom til liðs við Pírata,“ ítrekar Einar. Hann bætir því við að hann hafi hins vegar haft lengri tíma til að láta til sín taka í starfi Pírata fyrir norðan. Björn hafi aftur á móti komið seinna inn, eða eins og hann hafi orðað það í Facebook-færslunni „korter í þrjú“.

„Ég held bara að það sem ég stend fyrir, og mín málefni, hafi einfaldlega sigrað þarna. Kannski - ég veit það ekki - ég hafði það á tilfinningunni að Björn gerði meira út á persónuna Björn Þorláksson. Ég gerði meira út á málefni Einars Brynjólfssonar.“ Spurður út í hans helstu málefni nefnir Einar breytingu á stjórnarskránni og menntamál.

Helmingur Pírata tók þátt í prófkjörinu

Spurður nánar út í prófkjörið, segir Einar að formlegt kynningarferli hafi hafist 5. júní sl. og gat fólk skráð sig til þátttöku til 20. júní. Kosningin hófst svo 20. júní og stóð hún til 27. júní. Öll kynning fór fram á heimasíðu Pírata, www.piratar.is, og á kosningasíðu Pírata, x.piratar.is. Hann ítrekar að prófkjörið hafi átt að vera lokað, þ.e. aðeins fyrir félagsmenn í kjördæminu.

Alls voru 14 frambjóðendur í prófkjörinu og 78 atkvæði greidd. Spurður út í þetta segir Einar að þetta hafi verið rúmlega helmings þátttaka skráðra Pírata í Norðaustur-kjördæmi. Einar telur að þeir séu samtals 136.

Illa við völd og leiðtoga

Einar segir að næsta skref sé að klára að manna listann, þ.e. þau sæti sem út af standa. Verið sé að vinna að því núna. Hann bendir á að kjördæmisráð Pírata hafi séð um skipulag og framkvæmd prófkjörsins. Þá segir Einar að stjórn Pírata á Norðausturlandi hafi stigið til hliðar og varastjórn tekið við þegar prófkjörið og kynningarferlið fyrir það hófst.

Að lokum tekur Einar það fram, að þó að hann sé efsti maður á lista Pírata í kjördæminu þá þýði það ekki að hann ætli sér að stýra prófkjörsbaráttunni eða verði í forsvari fyrir flokkinn út á við. Það sé ekki í anda Pírata að búa til leiðtoga. Þeim sé illa við leiðtoga og illa við völd. 

„Fjölmiðlamenn hafa áður valist til forystustarfa og komist á þing. Þeir hafa ekki allir brillerað þar, svo ég taki ekki dýpra í árina,“ bætir Einar við í lok viðtalsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert