Þakka Íslandi stuðninginn

Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra og Milo Đukanović, forsætisráðherra Svartfjallalands, á …
Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra og Milo Đukanović, forsætisráðherra Svartfjallalands, á fundinum í dag. Ljósmynd/Forsætisráðuneytið

Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra átti í dag fund með Milo Đukanović, forsætisráðherra Svartfjallalands, sem sækir Ísland heim í tilefni af því að tíu ár eru liðin frá því að stofnað var til sjálfstæðs ríkis Svartfjallalands.

Í fréttatilkynningu frá forsætisráðuneytinu kemur fram að heimsóknin er skipulögð í þakklætisskyni við Ísland fyrir stuðning og vegna þess að Ísland var fyrst ríkja til að viðurkenna sjálfstæði Svartfjallalands árið 2006. Einnig er með heimsókn forsætisráðherra Svartfjallalands verið að þakka Íslandi fyrir að vera fyrst ríkja, tíu árum síðar, til að staðfesta viðbótarsamning við Norður-Atlantshafssamninginn sem varðar aðild Svartfjallalands að Atlantshafsbandalaginu (NATO). Þess má geta að þegar öll ríki NATO hafa staðfest viðbótarsamninginn verður Svartfjallaland 29. aðildarríki bandalagsins.  

Forsætisráðherra Íslands var þannig formlega þakkaður mikilsverður stuðningur Íslands við sjálfstæði Svartfjallalands árið 2006 og stuðningur Íslands við aðild Svartfjallalands að NATO. Ráðherrarnir ræddu á fundi sínum samskipti ríkjanna og voru sammála um að þau mætti auka og treysta enn frekar á ýmsum sviðum. Þá ræddu þeir meðal annars um öryggis- og varnarmál og niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu í Bretlandi um úrsögn úr Evrópusambandinu.

 „Fundurinn var afskaplega ánægjulegur og það yljar að finna þá miklu vinsemd og virðingu sem okkur er sýnd með heimsókn forsætisráðherra Svartfjallalands í tilefni af því að Ísland var fyrst ríkja til að viðurkenna sjálfstæði Svartfjallalands þann 8. júní 2006 og nákvæmlega tíu árum seinna, upp á dag, að tilkynna um staðfestingu Íslands á viðbótarsamningi við Norður-Atlantshafssamninginn um aðild Svartfjallalands að NATO – skemmtilegar dagsetningar,“ er haft eftir Sigurði Inga Jóhannssyni forsætisráðherra í tilkynningunni.

Forsætisráðherra Svartfjallalands heldur af landi brott síðdegis í dag, að loknum hádegisverði sem Sigurður Ingi Jóhannsson býður til, honum til heiðurs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert