Tveir leikskólar sameinaðir

Myndin er úr safni.
Myndin er úr safni. mbl.is/Ómar

Skóla- og frístundaráð Reykjavíkurborgar ákvað á fundi sínum í dag að sameina tvo leikskóla í Vesturbæ undir eina stjórn, leikskólann Mýri í litla Skerjafirði og Hagaborg. Sameiningin kemur til framkvæmda 1. september og er hugsuð sem tímabundin lausn til eins árs. 

Unnið verður í nánu samstarfi við foreldra og starfsfólk að þessum breytingum, að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Í greinargerð segir meðal annars að fyrirséð sé að einungis verði 27 börn á Mýri næsta haust, en þar er húsrými fyrir 47 börn. Þá séu báðir stjórnendur skólans að hætta störfum á næstu mánuðum. Skóla- og frístundasvið mat það svo að hætta ætti rekstri Mýrar af þesssum sökum, en foreldrar og starfsfólk óskuðu eftir því að starfsemi leikskólans yrði óbreytt í eitt ár með því fyrirkomulagi að leikskólastjóri í nágrannaleikskóla tæki við stjórn skólans.

Því varð að niðurstöðu að leikskólarnir yrðu sameinaðir og hafa foreldraráð og starfsfólk beggja leikskóla fallist á þá lausn. 

Leikskólarnir Mýri og Hagaborg eru nærri hvor öðrum og hugmyndafræði og starfsaðferðir þeirra eru um margt áþekkar, að því er segir í tilkynningunni.

Ólafur Börkur Bjarkasonar, leikskólastjóri í Hagaborg, mun stýra sameinuðum leikskóla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert