Vara við skráningarblaðssvindli

Dæmi um skráningarblaðið sem lögreglan varar við.
Dæmi um skráningarblaðið sem lögreglan varar við. ljósmynd/Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu varar við svindli með skráningarblöð sem smáum fyrirtækjum og einyrkjum hafa verið send. Blöðin líta út fyrir að vera hálfopinber og er viðtakandi beðinn um upplýsingar um fyrirtæki sitt fyrir evrópskan gagnagrunn.

Búið er að fylla út hluta upplýsinganna og allt virðist mjög formlegt og einfalt. Mjög snemma í bréfinu koma orðin: „The basic entry and the update are free of charge.“ Með í bréfinu fylgir umslag og eyðublað til að uppfæra upplýsingar og lykilatriðið þar er að það á að gefa upp VSK-númer, að því er kemur fram á Facebook-síðu lögreglunnar.

Fyrirtækið sem sendir bréfið hefur komið sér upp virkri vefsíðu og eru tengiupplýsingar þar réttar að vissu marki en þjónustan er engin og það er engin ástæða til þess að láta skrá sig þar, að sögn lögreglu.

Í smáa letri eyðublaðsins er verið að „kaupa“ auglýsingu fyrir 677 evrur (100.291 kr.). Falli einhver í þá gryfju að endursenda eyðublaðið fær viðkomandi rukkun fyrir 677 evrur og síðan lögfræðileg innheimtubréf. Það að fylla út VSK-númer er flokkað sem breyting á skráningu sem rukkað er fyrir og með því að endursenda eyðublaðið er kominn bindandi samningur.

„Ef viðkomandi hringir getur vel verið að honum sé boðinn afsláttur, oft mjög verulegur eins og 70%, og ef viðkomandi greiðir það þá er hann ekki sloppinn því að hann mun síðar fá aðra rukkun. Þá er honum líka bent á að með fyrstu greiðslu kom bindandi samningur. Grunnreglan er að aldrei borga neitt,“ segir á síðu lögreglunnar.

Svindl af þessu tagi er sagt geta valdið verulegum óþægindum og hugarangri enda sé mikið gert til þess að þrýsta á greiðslu þótt ekki sé vitað til þess að neinn hafi verið lögsóttur eftir slíkri greiðslu en því verður hótað og aukin flækjustig eins og stefna í Þýskalandi koma upp. 

„Besta leiðin til að varast svona er að svara aldrei slíkum bréfum. Gerið sjálf könnun á netinu um fyrirtækin og ekki treysta á neina tengla sem ykkur eru sendir eða gefnir upp,“ segir í viðvörun lögreglunnar vegna svindlsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert