WOW flýgur til New York

Manhattan-hverfið í New York að kvöldi.
Manhattan-hverfið í New York að kvöldi. AFP

Í dag hóf WOW air sölu á flugsætum til New York en félagið mun hefja áætlunarflug þangað 25. nóvember. Flogið verður þangað alla daga, allan ársins hring, að því er fram kemur í tilkynningu frá félaginu. 

Flogið verður til Newark-flugvallar í nýjum Airbus A321-þotum. Tímasetningar flugáætlunarinnar eru Íslendingum hagstæðar en brottför er kl 15:15. „Íslendingar geta því nýtt daginn í New York betur en áður og jafnframt aukast tengimöguleikar verulega,“ segir í fréttatilkynningu.

Í New York eru mögnuð mannvirki, lífleg listasena og fjölbreytt mannlíf. Borgin tilheyrir New York-ríki og er stærsta borg Bandaríkjanna og sú fjölmennasta með rúmlega átta milljónir íbúa. Borgin skiptist í fimm borgarhluta: Manhattan, Brooklyn, Bronx, Queens og Staten Island, hver með sinn einstaka karakter; og skemmtileg hverfi eins og t.d. Chinatown, SoHo og Greenwich Village. New York er suðupottur ólíkra menningarheima. 

„Við erum mjög stolt af því að geta boðið upp á daglegar ferðir til þessarar miklu heimsborgar á jafnhagstæðum og -viðráðanlegum kjörum og raun ber vitni,“ er haft eftir Skúla Mogensen, forstjóra og eiganda WOW air, í fréttatilkynningunni. „Þessi áfangastaður mun styrkja okkur mjög í þeirri viðleitni að verða öflugasta lággjaldaflugfélagið á alþjóðavísu en þessi mikli vöxtur félagsins væri ekki fyrir hendi ef ekki væri fyrir velvild og traust almennings. Fyrir það erum við afar þakklát og við munum að sjálfsögðu halda áfram að standa vaktina og bjóða upp á besta mögulega verð hverju sinni.“ 

 WOW air flýgur nú þegar allan ársins hring til ýmissa áfangastaða í Norður-Ameríku: Washington DC, Boston, Los Angeles, San Francisco, Toronto og Montréal.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert