16 mánaða fangelsi fyrir ýmis afbrot

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Ómar Óskarsson

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í dag karlmann á þrítugsaldri í sextán mánaða fangelsi fyrir ýmis hegningar-, fíkniefna- og umferðarlagabrot. Var hann jafnframt sviptur ökurétti ævilangt.

Brotin voru öll framin á þessu ári.

Hann var sakfelldur fyrir meðal annars að brjótast inn í sumarbústað í Mosfellsbæ og stelja þaðan sjónvarpi, útvarpsmagnara, litum gítarmagnara í tösku, Yamaha 12 strengja kassagítar og mandólíni. Þá braust hann einnig inn í vörhús Ormsson og stal þaðan fartölvu og kassa með fataskáp.

Að auki fór hann inn í nýbyggingu við Lindargötu 28 og stal þaðan ýmsum verkfærum, borvélum, hæðakíki, sverðsög og níu helluborðum, samtals að verðmæti 1.810.000 kr.

Þá stal hann tveimur tölvum af gerðinni Apple iMAc í húsnæði 365 að Skaftahlíð.

Maðurinn framdi einnig umferðarlagabrot með því að aka bifreið sviptur ökurétti og ófær um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist 265 ng/ml af MDMA og 15 mg/ml af metýlfenídat) vestur Lindargötu uns lögregla stöðvaði aksturinn skömmu síðar.

Maðurinn játaði skýlaust brot sín. Hann á að baki sakaferil en frá árinu 2009 hefur hann níu sinnum verið dæmdur fyrir brot gegn almennum hegningarlögum, umferðarlögum og lögum um ávana- og fíkniefni. Tveir síðustu dómarnir eru frá árinu 2015.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert