Berjast fyrir afnámi verðtryggingar

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins.
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins. Ljósmynd/Aðsend mynd

Flokkur fólksins mun bjóða fram í öllum kjördæmum í komandi Alþingiskosningum. Flokkurinn hefur fengið listabókstafinn F að því er fram kemur í fréttatilkynningu.

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, segir helstu baráttumálin vera að hækka lágmarksframfærslu öryrkja og eldri borgara í 300 þúsund krónur á mánuði, afnema verðtrygginguna og keyra vextina niður „eins og best þekkist í löndunum í kringum okkur sem við viljum svo gjarnan bera okkur saman við. Ef þeir geta það, þá getum við það líka,“ segir Inga.

Hún segir flokkinn ekki skilgreina sig eftir hægri eða vinstri heldur aðeins vera „hugsjónaflokk með markmið“. „Það er enginn að berjast fyrir láglaunamanninn, fyrir þann sem greiðir alla skattana og ber þyngstu byrðarnar,” segir Inga í samtali við mbl.is.

Spurð hvaðan flokkurinn muni sækja fylgi sitt segir hún frá öllum flokkum. „Ég vona, og mér sýnist af viðtökunum, að það sé úr öllum flokkum. Frekar þeir sem vilja afnema verðtrygginguna og því sækjum við ekki fylgi til fjármálakalla eða bankageirans. Þeir sem sjá lengra og eru tilbúnir að tjalda til framtíðar, ekki bara til einnar nætur, gefa okkur vonandi tækifæri,” segir hún.

Flokkurinn heldur sinn fyrsta kynningarfund í Iðnó á morgun, föstudaginn 1. júlí klukkan 16:30. Inga segir kynningarfundinn lið í því að fá fólk inn í flokkinn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert