Ekki beint úr sófa og á Fimmvörðuháls

Sumir segja að eldgosið á Fimmvörðuhálsi hafi verið sannkallað túristaeldgos.
Sumir segja að eldgosið á Fimmvörðuhálsi hafi verið sannkallað túristaeldgos. mbl.is/RAX

Vinsældir gönguleiðarinnar um Fimmvörðuháls færast sífellt í aukana en umferð um hálsinn hefur aukist töluvert ár frá ári. Mest var umferðin í júlímánuði í fyrra og má búast við að hún aukist enn frekar í ár. Ekki er haldið reglubundið yfirlit yfir þann fjölda fólks sem gengur Fimmvörðuháls en þeir sem þekkja til hafa orðið verulega varir við aukninguna. Leiðin þykir ansi skemmtileg en getur verið þung yfirferðar og því mikilvægt að fara vel búinn af stað.

Öryggið skiptir öllu

Kittý Bjarnadóttir hjá hálendisvakt Slysavarnarfélagsins Landsbjargar ítrekar mikilvægi þess að fólk sé vel út búið fyrir göngu á Fimmvörðuháls. Færð á gönguleiðinni sé í nokkuð góðu lagi núna en veðurhorfur skipta sköpum áður en lagt er af stað. Hún segir leiðina nokkuð greiða og flestum færa, það er þeim sem treysta sér til. 

Slysavarnarfélagið Landsbjörg býður ferðamönnum upp á að skrá ferðaáætlun sína í gegnum heimasíðuna safetravel.is en segir Kittý fólk almennt nokkuð duglegt við að skilja eftir ferðaáætlun. Bæði eykur það öryggi ferðamanna og auðveldar störf björgunarsveita komi til þess að fólk þurfi á aðstoð að halda.

Kort af leiðum yfir Fimmvörðuháls.
Kort af leiðum yfir Fimmvörðuháls. Ljósmynd/ fimmvorduhals.is

Margir taka hliðarspor út af leiðinni til að berja þá Móða og Magna augum, gígina sem mynduðust við eldgosið á Fimmvörðuhálsi 2010. Til að komast að gígunum þarf að fara út af hefðbundinni leið og þá er brýnt að hafa staðsetningarbúnað meðferðis þar sem algengt er að skelli á með þoku og þá er auðvelt að villast af leið.

Jónas Guðmundsson fer með slysavarnarmál hjá Landsbjörgu en hann segir að í aðgerðagrunni slysavarnafélagsins séu að minnsta kosti fjórar aðgerðir tengdar Fimmvörðuhálsi skráðar árið 2014, þrjár árið 2015 og ein það sem af er ári 2016. Þær gætu þó verið fleiri. 

Jónas segir að þrátt fyrir fjölgun göngufólks um leiðina virðist ekki sem aðgerðum þar hafi fjölgað umfram aðra staði. Suðurland er þó fjölmennasta ferðamannasvæði landsins en þar eru hlutfallslega fleiri útköll en annars staðar á landinu.

Fjöldi fer um Baldvinsskála

„Það er alveg nóg umferð hjá mér, það er dásamlegt veður og leiðin er greið,“ segir Katrín Klemenzardóttir, skálavörður í Baldvinsskála á Fimmvörðuhálsi.

„Göngustígurinn góður og bara getur ekki verið betra eins og staðan er núna,“ segir Katrín. Hún segir flest göngufólkið sem í skálann hefur komið vera erlenda ferðamenn en aðeins einn Íslendingur hefur komið við í skálanum frá því hann var opnaður í síðustu viku.

Um það bil 4-5 klukkustunda ganga er frá Skógum að skálanum en gangan í heild, frá Skógum að Básum í Þórsmörk, tekur um 10 klukkustundir að jafnaði, allt eftir gönguhraða hvers og eins, gönguleið og aðstæðum hverju sinni. 

Frá því skálinn var opnaður fyrir viku síðan hafa 20 til 25 manns á dag lagt leið sína um skálann sem tekur 20 manns í gistingu. Flestir ganga þó leiðina á einum degi að sögn Katrínar en aðeins um 5 til 6 manns á nóttu hafa gist í skálanum það sem af er sumri. Langflestir sem ganga hálsinn koma við í skálanum, það sé helst ef þoka er mikil eða ef fólk er seint á ferðinni sem það gistir í skálanum að sögn Katrínar.

Katrín segir fólk almennt vel búið til göngunnar en þó séu dæmi um að fólk sé vanbúið. Í slíkum tilfellum ráðleggur hún fólki ávallt að halda ekki áfram göngunni en getur þó ekki hindrað för þeirra er vilja halda ótrauðir áfram. Í slíkum aðstæðum biður hún göngufólk að láta sig vita þegar komið er á leiðarenda.

Þá segir Katrín Fimmvörðuháls vera fallegasta stað á Íslandi, þangað ættu allir að leggja leið sína einhvern tímann á lífsleiðinni.

Baldvinsskáli.
Baldvinsskáli. Ljósmynd/ fimmvorduhals.is

Þverskurður íslenskrar náttúru

Guðmundur Örn Sverrisson starfaði sem skálavörður í Fimmvörðuskála sumarið 2011 en hann heldur úti síðunni fimmvorduhals.is þar sem nálgast má töluvert af gagnlegum upplýsingum um leiðina. Guðmundur gekk hálsinn fyrst á níunda aldursári og ber sterkar taugar til gönguleiðarinnar.

Hann mælir eindregið með gönguleiðinni enda falleg leið sem býður upp á þverskurð af íslenskri náttúru. Gengið er yfir gróið gras, grjót og sand, snjó og um kletta. Náttúran blasir við í allri sinni dýrð, jökulár og fossar, auðn jafnt sem gróður, að ógleymdum heitum eldfjöllum. Þá hefur gönguleiðin um Fimmvörðuháls hlotið útnefningu National Geographic sem ein af bestu gönguleiðum í heimi í flokkinum „epic trails“.

„Ég er svo mikill nörd að sonur minn sem er tveggja ára, hann heitir Brimir Magni,“ segir Guðmundur en hann skýrði son sinn í höfuð annars gíganna sem mynduðust í gosinu 2010, Magna og Móða.

Hann telur þó að enginn ætti að ganga Fimmvörðuháls án leiðsagnar nema viðkomandi hafi góða reynslu. „Já, þetta er ekki fyrir byrjendur, það er alveg á hreinu,“ segir Guðmundur. „Ég myndi ekki benda einhverjum að fara upp úr sófanum og upp á Fimmvörðuháls.“ 

Guðmundur Örn leggur áherslu á að fólk fylgist vel með veðri og færð. Veður á Fimmvörðuhálsi getur verið í litlu sem engu samræmi við veður- og veðurfarsspár í Skógum og í Básum og mælir hann með því að fólk kynni sér ólíkar veðurþáttaspár áður en lagt er af stað. Einnig er mikilvægt að huga bæði að búnaði og eigin getu og skilja eftir ferðaáætlun en hann mælir einnig með 112 snjallsímaforritinu.

Fjölbreytt flóra ferðalanga

Fjöldi ferðamanna, bæði íslenskra og erlendra, leggur leið sína yfir Fimmvörðuháls ár hvert, ýmist á eigin vegum eða með leiðsögn. Fólk af öllum aldri heldur í gönguna en dæmi eru um að börn frá fimm ára aldri og fólk upp í áttrætt hafi lagt í gönguna.

Ferðafélag Íslands stendur fyrir einni skipulagðri ferð á Fimmvörðuháls í sumar sem skipulögð er af Ferðafélagi unga fólksins. Þá fer ferðafélagið Útivist í átta ferðir í sumar og eru að jafnaði allt að 20 manns í hverjum hópi. Útivist stendur árlega fyrir Jónsmessugöngu yfir Fimmvörðuháls en í ár tekur um 80 manns þátt í göngunni. 

Göngufólk á gangi milli Magna og Móða, Móði á miðri …
Göngufólk á gangi milli Magna og Móða, Móði á miðri mynd en hlíðar Magna vinstra meigin. mbl.is/ Haraldur Guðjónsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert