Fyrst kvenna forseti Lions

Guðrún Björt Yngvadóttir var kjörin 2. varaforseti Lions á alþjóðaþinginu …
Guðrún Björt Yngvadóttir var kjörin 2. varaforseti Lions á alþjóðaþinginu í Fukuoka í Japan. Ljósmynd/Lionshreyfingin

Guðrún Björt Yngvadóttir hefur verið kjörin 2. varaforseti Lionshreyfingarinnar á heimsvísu á alþjóðaþingi hennar í Fukuoka í Japan. Í samtali við Morgunblaðið segist Guðrún himinlifandi með kjörið, en hún er fyrsta konan sem kosin er til forystu hreyfingarinnar í nær hundrað ára sögu hennar.

Guðrún segir kjörið þýða að hún verði 1. varaforseti að ári liðnu og loks alþjóðaforseti hreyfingarinnar ári seinna.

„Þá verð ég forseti í eitt ár en þangað til er þetta teymi sem vinnur saman, svo maður er strax farinn að hafa áhrif og axla ábyrgð. Í beinu framhaldi af embætti forseta liggur leiðin í stjórn Alþjóðahjálparsjóðsins svo þetta er skuldbinding til sex ára. Þannig að maður er ekki að fara að setja fæturna upp í loftið og slappa af,“ segir Guðrún létt í bragði.

Tveir stórir þröskuldar

Aðspurð segist hún hafa fundið fyrir miklum stuðningi á þinginu í Fukuoka, en það sækja um fjörutíu þúsund manns hvaðanæva að.

„Þessi mikli stuðningur kom mér svo á óvart því það var búið að spá því fyrir mér að fyrir lægju tveir stórir þröskuldar,“ segir Guðrún.

„Annars vegar að ég væri kona, því það hefur aldrei verið kona áður og menn hafa alltaf séð fyrir sér einhverja stóra og sterka karla í þessu hlutverki. Hins vegar hefur aldrei neinn forseti verið frá jafn litlu landi. Og það vakti eiginlega fleiri spurningar en hitt.“

Þegar kom að kosningum á þriðjudag höfðu hinir fjórtán frambjóðendurnir allir dregið framboð sitt til baka, þar sem Guðrún hafði fengið fjölda stuðningsyfirlýsinga, þar á meðal frá alþjóðastjórninni.

„Þegar upp var staðið var ég því ein í kjöri, en enn var hægt að fella mig á því að greiða mér ekki atkvæði, þar sem ég varð að fá meirihluta atkvæða. Mitt markmið var því áfram að reyna að afla frekari stuðnings og það gekk eftir,“ segir Guðrún og bendir á að allir þeir rúmlega fjögur þúsund sem kusu hafi greitt henni sitt atkvæði.

„Mér fannst ekki nóg, þegar allir voru búnir að stíga til hliðar, að sleppa bara í gegn. Heldur vildi ég fá góðan sigur og vita að ég hefði almennan stuðning. Og hann var svo sannarlega til staðar, sem ég kann ótrúlega vel að meta.“

Rúm milljón félaga í Lions

Á vef Lions-hreyfingarinnar segir að hún sé stærsta alþjóðlega þjónustuhreyfing heims, en upphaf hennar má rekja til Bandaríkjanna árið 1917.

Í dag hefur hreyfingin á að skipa yfir 1,3 milljónum félaga en hún er sögð óháð stjórnmálaflokkum og trúfélögum.

Árið 1920 eða einungis 3 árum eftir að hreyfingin var stofnuð varð Lions alþjóðleg þegar fyrsti Lions-klúbburinn var stofnaður í Kanada. Á 6. og 7. áratugnum óx hreyfingin mjög hratt og var klúbburinn hér á landi stofnaður árið 1951.

Lions-hreyfingin býður upp á fjölbreytt félagslíf, fræðslu, skemmtanir, verkefni, fundi og ferðalög með vinum og fjölskyldum, að því er fram kemur á vefnum www.lions.is.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert