Leiti í smiðju handboltans

Nafnanotkun Íslendinga vekur athygli í Frakklandi.
Nafnanotkun Íslendinga vekur athygli í Frakklandi. AFP

Franska vikuritið L'Express segir í umfjöllun í aðdraganda leiks Íslendinga og Frakka á EM í knattspyrnu, að franska liðið geti leitað í smiðju handboltaliðsins franska um hvernig beri að ganga til leiks gegn Íslendingum.

„Hinir tvöföldu ólympíumeistarar í handbolta eru vanir því að mæta Íslendingum í kappleik,“ segir tímaritið og rekur nokkrar viðureignir liðanna á stórmótum og leitar álits á viðureigninni komandi sunnudag hjá tveimur landsliðsmönnum Frakka í handbolta.

„Frakkland-Ísland. Viðureign tveggja stórvelda í íþrótt sinni, barátta stjarna . . . í handbolta. Undirbúi leikmenn Didier Deschamps sig undir ófyrirsjáanlega viðureign á sunnudag gegn liðsfélögum Eiðs Guðjohnsen þá hafa löndin tvo oft háð rimmur í 7-manna íþróttinni. Á eldfjallaeyjunni kallar köld veðrátta á að leikið sé innanhúss og þar er klístraði boltinn allsráðandi,“ segir l'Express.

„Löndin tvö eiga samhliðasögu í handboltanum,“ segir fyrrverandi handknattleiksmaðurinn Grégory Anquetil sem er tvöfaldur heimsmeistari með franska landsliðinu. Sinn fyrsta titil unnu Frakkar á Íslandi 1995. „Þrettán árum seinna unnu þeir sitt fyrsta ólympíugull í Peking, eftir að hafa lagt hina norrænu menn að velli 28-23. Síðar töpuðu þeir (30-29) fyrir hinum sömu Íslendingum í riðlakeppninni á leikunum í London 2012.“   

Anquetil segist sjá hina sömu bardagamenn í fótboltalandsliðinu og íslenska handboltaliðinu sem hann lék svo oft gegn. „Þeir eru eins, bardagamenn sem gefa aldrei neitt eftir, sannir víkingar.“ Gegn bæði Englandi og Portúgal lenti liðið undir en brúaði síðan bilið í báðum leikjum. „Þetta er eins í handboltanum, jafnvel þótt þeir séu 10 mörkum undir í leik og aðeins 10 mínútur eftir þá trúa þeir á sigur fram á síðustu sekúndu, bugast ekki undan okinu og telja í sig kjark.

„Til viðbótar baráttuandanum hefur komið í ljós kraftmikið eðlisfar. Frá byrjun mótsins hefur ólympísk ró verið yfir Íslendingunum. Aldrei hafa þeir virst vera við það að hrynja, hvorki líkamlega né andlega. Ólympíumeistarinn frá 2008, Jérôme Fernandez, segist sjá í þeim hina dæmigerðu skandinavísku yfirvegun. „Þeir sýna fulla sjálfstjórn,“ segir Fernandez,“ segir í umfjöllun á vefsetri l'Express.

Blaðið segir að lokum, að handboltamennirnir séu einhuga um það, að frönsku fótboltamennirnir verði að tvíefla árvekni sína á sunnudag og láta ekki hroka ná á sér tökum. „Leikurinn verður þeim erfiðari en viðureignin gegn Írum. Þeir verða að beita sömu ákefð og bardagahvöt og Íslendingarnir, annars hafa þeir þetta ekki,“ segir Jérôme Fernandez. „Frakkarnir skulu ekki reikna með neinum gjöfum frá Íslendingum og gæta sín heldur vel á þeim þar til flautað er til leiksloka,“ bætir Grégory Anquetil. Fótboltamennirnir hafa verið varaðir við,“ segir l'Express.

agas@mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert