Mörg þúsund fljúga til Parísar

Gleðin var mikil í Nice þegar Íslendingar sigruðu Englendinga.
Gleðin var mikil í Nice þegar Íslendingar sigruðu Englendinga. mbl.is/Golli

Nokkur þúsund Íslendingar fljúga til Frakklands um helgina til þess að styðja við íslensku landsliðsmennina í leik þeirra gegn Frökkum. 

WOW air áætlar að hátt í þrjú þúsund manns fljúgi með þeim til Parísar eða áleiðis. „Við búumst við 1.400 farþegum í beinu flugi til Parísar föstudag, laugardag og sunnudag,“ segir Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi WOW, og bætir við að annar eins fjöldi fljúgi til Lundúna, Amsterdam, Frankfurt, Lyon, Berlínar, Nice og Mílanó þaðan sem þeir koma sér áfram til Parísar.

Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir að um það bil 1.300 manns í fimm ólíkum ferðum fari til Parísar vegna leiksins gegn Frökkum. „Það er auðvitað bara hluti af þeim sem fljúga með okkur, nálægt 30 ferðir eru til Evrópu á hverjum degi og við vitum að það er fullt af fólki sem er þegar komið til Parísar þannig að við höfum engar forsendur til að giska á hvað það er stór hópur sem flýgur með okkur,“ segir Guðjón.

Þá gengur vel að selja í leiguflug. Eskimo travel var langt komið með að fylla 133 sæta leiguflugvél, sem flýgur snemma á sunnudag til Parísar, að sögn Daníels Gríms Kristjánssonar, verkefnastjóra hjá Eskimo travel, í samtali við mbl.is fyrr í dag.

Fullt er í vél Netmiða.is og auglýsingastofunnar 23 en 180 manns fljúga út með leiguflugvélinni, þar af 10 meðlimir stuðningssveitarinnar Tólfunnar sem boðið var með í flugið. Kristinn Bjarnason, einn skipuleggjenda ferðarinnar og fararstjóri, segir að selst hafi upp í flugið á tveimur sólarhringum en plötusnúður verður um borð auk þess sem Erpur Eyvindarson heldur uppi fjörinu í háloftunum.

Trans-Atlantic-ferðaskrifstofan vinnur að því að fylla tvær 100 sæta leiguflugvélar; önnur fer frá Akureyri og hin frá Reykjavíkurflugvelli á sunnudagsmorgun. Ómar Branin, framkvæmdastjóri Trans-Atlantic, sagði í samtali við mbl.is fyrr í dag að betur gengi að selja í vélina sem fer frá Reykjavíkurflugvelli þar sem um 15 sæti voru enn laus um klukkan fjögur í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert