Ókyrrð á heimleið frá New York

Flugvél Icelandair lenti í mikilli ókyrrð í lofti þegar vélinni …
Flugvél Icelandair lenti í mikilli ókyrrð í lofti þegar vélinni var flogið frá New York til Keflavíkur í morgun. mbl/ Júlíus Sigurjónsson

Áfallateymi Rauða kross Íslands var kallað út í morgun til þess að hlúa að tveimur flugfarþegum eftir að upp kom mikil ókyrrð í flugi Icelandair á leiðinni frá New York til Íslands í morgun.

Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir að mikil ókyrrð hafi komið upp í fluginu í morgun þegar flugvélin hafði verið um einn og hálfan tíma í loftinu.

„Ókyrrðin stóð reyndar ekki í langan tíma en svona getur komið fyrir og ef áhöfnin skynjar að eitthvað sé að þá er þetta stundum gert,“ segir Guðjón um að áfallateymið hafi verið kallað út.

Hann segir að það sé fyrst og fremst þjónusta af hálfu Icelandair við farþega að kalla út áfallateymið. „Þegar komið var til Keflavíkur voru tveir farþegar sem spjölluðu við Rauða krossinn,“ segir Guðjón.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert