Rækta býflugur og bjóða til skógargöngu

Býflugnabóndi Agnes skoðar býflugnaramma í viðeigandi hlífðarklæðum.
Býflugnabóndi Agnes skoðar býflugnaramma í viðeigandi hlífðarklæðum. Ljósmynd/Guðfinnur Eiríksson

„Fjölskyldan mín keypti jörðina fyrir 28 árum og hér höfum við stundað skógrækt allar götur síðan. Við vorum með gistiheimili hér fyrstu sjö árin en einbeitum okkur nú alfarið að skógræktinni og keyptum næstu jörð hér við hliðina, Borgarholt, til að stækka skóginn,“ segir Agnes Geirdal sem býr ásamt manni sínum, Guðfinni Eiríkssyni, móður sinni, Sigurbjörgu Snorradóttur, og föður, Nirði Geirdal, á hinum gróðursæla Galtalæk í Biskupstungum.

„Við vorum hér öll sumur að vinna við gistiheimilið og skógræktina en við Guðfinnur fluttumst alfarið hingað fyrir fjórum árum og hér líður okkur vel. Hér eru góðir nágrannar og við vorum munstruð í skemmtinefnd hjá Bræðratungusókn fyrir þorrablót sveitarinnar, ári áður en við vorum alkomin, það fréttist fljótt að við hefðum flutt lögheimilið hingað.“

Ástarfundur einu sinni á ævi

Agnes hefur verið með býflugnabú í skóginum á Galtalæk frá 2012.

„Það gengur á ýmsu, norðanáttin kemur hingað beint af hálendinu en köld og blaut sumur eru verst, þá halda býflugurnar sig inni í búunum og afla einskis á meðan. Þær þurfa að fara út í blómin til að ná í nektar og frjókorn, en nektarinn verður svo að alvöru hunangi,“ segir Agnes og bætir við að þau séu með fimm býflugnabú í skóginum, en í hverju búi eru um 60-80 þúsund flugur, þegar það er fullskipað að sumri til.

„Drottningarnar lifa í þrjú til fimm ár. Þær fara út í eitt skipti á sinni ævi og skemmta sér, þá reyna þær að hitta eins marga drunta, eða karldýr, og þær geta. Eftir ástarfundinn fara þær inn í bú og verpa eggjum það sem eftir er. Frjóu eggin verða að þernum en þau ófrjóu verða að druntum. Druntarnir gera lítið, þeirra verkefni er að finna drottningar og frjóvga þær og þeir fljúga saman í hópum og bíða eftir drottningum. Í ágúst er þeim síðan hent út og ef þeir reyna að koma inn þá eiga þernurnar það til að bíta af þeim vængina. Þernurnar hafa þá ekki lengur tíma til að dekra við strákana, þær eru í mikilli vinnu við að safna vetrarforða, hunangi, sem við svo stelum frá þeim. Ég skil þó alltaf eftir neðstu tvo kassana fyrir þær til að hafa yfir veturinn og fóðra þær síðan með sykurvatni til að styrkja vetrarforðann. Búin eru misstór og sum geta orðið fjórir til fimm kassar á hæð á sumrin, það er heldur stórt rými fyrir flugurnar að hita upp yfir veturinn, tveir til þrír kassar er kjörstærð. Þernurnar hópast utan um drottninguna yfir veturinn og þær halda á henni hita með því að blaka vængjunum. Býflugurnar halda í sér allan veturinn og þegar vorið kemur þá fljúga þær út og fara allar að skíta, þetta er kallað „skítaflug“, segir Agnes. Mikið er um villtan gróður á Galtalæk og fíflarnir eru friðaðir fyrir flugurnar.

Misduglegar drottningar

Býflugnabúin gefa af sér undurgott hunang, en það er aldrei fyrirsjáanlegt hversu mikið verður af því.

„Fyrsta sumarið okkar vorum við aðeins með tvö bú og annað búið skilaði okkur 36 kílóum af hunangi en hitt aðeins sex kílóum. Drottningarnar geta verið misduglegar að verpa og þá verður ekki eins mikil fjölgun í búunum og þá færri sóknarflugur. Ég tók til dæmis ekkert hunang frá býflugunum eftir kalda sumarið í fyrra, ég leyfði þeim að taka allt sitt inn í veturinn, ég vildi að búin lifðu af.“ Agnes segir að hún líti til með búunum svo til á hverjum degi til að athuga hvort allt sé í lagi en án þess að trufla flugurnar.

„Ef það er skrýtin hegðun á flugunum fyrir utan búin, þá er eitthvað að. Flugurnar geta tekið upp á því að „sverma“, það er þegar drottningin stingur af með hluta af búinu og ætlar sér að hefja búskap á öðrum stað. Til að koma í veg fyrir sverm þarf að opna búin einu sinni í viku til að gæta að varpi og bæta við kössum ef búið þarf meira rými og jafnvel að kljúfa búin.“

Hundurinn fóstrar kettling

Þau Agnes og Guðfinnur eru einnig með tíu íslenskar hænur og þar er kóngur í ríki sínu haninn Guðni.

„Hann heitir í höfuðið á Guðna Ágústssyni og hann passar sérlega vel upp á sínar skvísur, rekur þær inn og út úr kofanum eftir gangi himintungla. Við erum líka með þrjár endur og svo er það djásnið, hundurinn Hrói og kisan Hrísla sem á einn kettling. Hrói hefur tekið að sér að hugsa afar vel um kettlinginn, þrífur hann og mömmuna líka. Hann er vænsta skinn en sækir í að stelast yfir á næsta bæ, Ásakot, og heimsækja vin sinn, bæjarhundinn þar.“

Í skógræktinni í Galtalæk hefur verið plantað um þrjú hundruð og sjötíu þúsund plöntum, enda gróðursetja þau tugi þúsunda plantna á hverju ári. Skógræktarsvæðið nær í kringum hundrað hektara á Galtalæk.

„Þetta er hugsað sem nytjaskógur, þegar fram líða stundir, timbur, kurl, jólatré og fleira. Ég nota líka hráefni úr skóginum, börk, lauf, blóm og fleira, til að lita ullargarn á náttúrulegan hátt og býflugur eru líka ein af skógarafurðunum. Auk þess er skógrækt gott innlegg til að binda kolefni, veitir ekki af á þessum tímum loftslagsbreytinga.“ Fura, greni og ösp eru aðaluppistaðan í skóginum, en einnig eru dekurplöntur, birki og reynir, sem og nokkrar lerkiplöntur. Dýralífið er nokkuð líflegt í skóginum, mikið af fuglum – þar er m.a. brandugla – refur og minkur í skurðum.

„Það er ekki átakalaust að vera með alifugla þegar svona mikið er af mink. Ég hef misst marga fugla í kjaft minksins. Í fyrra drap minkur á einu bretti fimmtán andarunga og tólf hænuunga. Við settum upp gildrur og náðum honum.“ Guðfinnur starfar sem húsamálari og segir nóg að gera í sveitinni, enda mikil uppbygging á þessu vinsæla ferðamannasvæði og gríðarlegur fjöldi sumarhúsa á svæðinu.

Skógarganga á morgun

Það verður boðað til skógargöngu á morgun, föstudaginn 2. júlí, klukkan 14 á Galtalæk.

„Nú er verið að leggja niður Skógrækt ríkisins og landshlutabundnu skógræktarverkefnin, en í staðinn verður ein stofnun sem heitir Skógræktin, og hún verður formlega stofnuð á morgun 1. júlí. Af því tilefni verður skógræktarganga í hverjum landshluta, og hún verður semsagt hér hjá okkur fyrir Suðurlandið.

Við bjóðum fólki að koma til okkar, og svo göngum við inn í skóginn með smá fræðslu um ræktunina. Að því loknu bjóðum við upp á ketilkaffi hér við útihúsin, að skógarmanna sið.“

Allir eru velkomnir.

Mörg eru hlutverk þernunnar

Þernan lifir í um 42 daga ef allt fer vel. Verkefni hennar um ævina eru:

1-2 daga gömul: Hreinsa vaxhólfin og halda hita á ungviðinu.

3-5 daga gömul: Fæða eldri lirfur.

6-11 daga gömul: Fæða yngstu lirfurnar og þjóna drottningu.

12-17 daga gömul: Framleiða vax, byggja vaxhólf, flytja mat í hólfin og þjóna drottningu.

18-21 dags gömul: Standa vörð um innganginn.

22 daga gömul og til æviloka: Fara í söfnunarleiðangra, safna frjókornum, nektar og vatni. Býflugan heimsækir um 50-100 blóm í hverri ferð og hún safnar um einum tólfta úr teskeið af hunangi um ævina.

Glæsilegur. Haninn Guðni heitir eftir Guðna Ágústssyni og er reffilegur.
Glæsilegur. Haninn Guðni heitir eftir Guðna Ágústssyni og er reffilegur. Ljósmynd/Agnes Geirdal
Þau Agnes og Guðfinnur kunna vel við sig í sveitinni …
Þau Agnes og Guðfinnur kunna vel við sig í sveitinni og hundurinn Hrói er alsæll eins og sjá má. mbl.is/Kristín Heiða
Drottningin er með grænan haus og þernurnar þjóna henni og …
Drottningin er með grænan haus og þernurnar þjóna henni og búa til fallegu sextrendu vaxhólfin og safna frjókornum og nektar. Ljósmynd/Agnes Geirdal
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert