Reyna að fylla tvær 100 manna vélar

Ferðaskrifstofur og flugfélög keppast við að ferja íslensku stuðningsmennina til …
Ferðaskrifstofur og flugfélög keppast við að ferja íslensku stuðningsmennina til Parísar fyrir leikinn á sunnudaginn. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Starfsmenn ferðaskrifstofunnar Trans Atlantic vinna hörðum höndum að því að fylla tvær leiguflugvélar til Frakklands en vélarnar voru teknar að leigu fyrir landsleik Íslands og Frakklands á sunnudag í 8-liða úrslitum EM í knattspyrnu.

Önnur vélin tekur af stað frá Reykjavíkurflugvelli en hin frá Akureyri. Ómar Banin, framkvæmdastjóri Trans Atlantic, segir það ganga betur að fylla vélina frá Reykjavík og hvetur áhugasama til að hafa samband strax við ferðaskrifstofuna því það sé ekkert svigrúm lengur til að hugsa sig um. „Þetta er annaðhvort eða,“ segir hann en ferðaskrifstofan verður að staðfesta vélarnar við leiguflugfélagið seint í kvöld.

Hundrað sæti eru í hvorri vél en flogið verður út klukkan sjö að morgni sunnudags og aftur heim klukkan þrjú aðfaranótt mánudagsins. Verðið er 139.900 kr. á flugmiða frá Akureyri en 144.900 frá Reykjavík. „Svo getum við reddað miðum á völlinn fyrir þá sem vantar miða,“ segir Ómar.

„Ég er bjartsýnn,“ segir Ómar spurður hvort það takist að fylla vélarnar. „Við erum komin með töluvert meiri sölu í Reykjavík og erum að bíða eftir svari frá hóp,“ segir hann. 

Hér má finna frekari upplýsingar um ferðina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert