Seldist upp á tveimur sólarhringum

Það tók ekki nema tvo sólarhringa að fylla leiguflugið til …
Það tók ekki nema tvo sólarhringa að fylla leiguflugið til Frakklands. mbl.is/Þórður Arnar

Öll 180 sæti leiguflugvélarinnar sem Netmiði.is og auglýsingastofan 23 tóku á leigu fyrir leik Íslands og Frakklands sem leikinn verður næstkomandi sunnudag seldust upp á aðeins tveimur sólarhringum.

Kristinn Bjarnason hjá auglýsingastofunni 23 segir viðtökurnar hafa verið trylltar. „Umsóknir og bókanir létu ekki á sér standa og áhuginn á fluginu var mikill,“ segir Kristinn en ákveðið var að bjóða tíu Tólfumeðlimum með í flugið til Frakklands. 

Blaz Roca og plötusnúður sjá um stemninguna í háloftunum

„Tólfan hefur hrósað okkur fyrir þetta framtak. Það var mjög ánægjulegt að sjá fleiri fylgja okkar fordæmi í kjölfarið, hvort sem er í formi flugmiða eða penings,“ segir hann og bætir við að þetta verði sannarlega partívélin á leiðinni til Frakklands. „Þarna verða Tólfan og 170 aðrir í góðu stuði. Einn af þeim er Blaz Roca [Erpur Eyvindarson] sem heldur uppi góðri stemningu og þar að auki verður plötusnúður í vélinni,“ segir Kristinn.

Erpur Eyvindarson sér til þess að allir verði „á halanum“ …
Erpur Eyvindarson sér til þess að allir verði „á halanum“ á leiðinni til Frakklands. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hann segir stæðið á Keflavíkurflugvelli klárt og verið sé að senda út flugmiðana í þessum töluðum orðum. „Það er gríðarleg eftirvænting eftir þessu ævintýri,“ segir Kristinn sem er sjálfur að fara að sjá íslenska landsliðið keppa á EM í fyrsta skipti. „Fyrir mér er þetta ný upplifun, að sjá Ísland á stórmóti. Mig dreymdi um þetta þegar við vorum á leiðinni á EM og eftir sigurinn á móti Englandi varð mér ljóst að ég yrði að skella mér út,“ segir hann.

Kristinn fundaði með Tólfunni áðan í höfuðstöðvum Henson þar sem Tólfumenn voru að sækja fleiri treyjur. „Það tekst mögulega að framleiða nýja sendingu til að taka með út og dreifa og selja til Íslendinga í vandræðum,“ segir Kristinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert