Stærri skjár við Arnarhól á sunnudag

Íslendingar á Arnarhól fylgjast með leik Íslands og Englands.
Íslendingar á Arnarhól fylgjast með leik Íslands og Englands. Þórður Arnar

Risaskjá verður aftur komið fyrir við Arnarhól fyrir leik Íslendinga og Frakka á sunnudaginn. Skjárinn verður stærri nú en hann var fyrir leikinn gegn Englendingum á mánudag, eða 36 fermetrar, en skjárinn sem leikurinn gegn Englendingum var sýndur á var 26 fermetrar.

Í fréttatilkynningu frá aðstandendum EM-torgsins segir að bætt verði úr salernisaðstöðu og aðgengi fyrir fatlaða. Þá verður Lækjargata lokuð frá morgni til kvölds, en búast má við frekari lokunum á götum í miðborginni þegar líður á daginn.

Leikurinn hefst klukkan 19:00 á sunnudaginn, en sérstök upphitunardagskrá verður fyrir leikinn svo það borgar sig að mæta tímanlega, segir í tilkynningunni.

Gunnar Lár Gunnarsson hjá Manhattan marketing, segir uppsetningu á skjánum verða betri nú en á mánudag. Skjárinn verði hærra uppi og framar á sviðinu, svo ekkert mun skyggja á hann og sjónsviðið verði því mun betra. Þá verði hátalarakerfið öflugara.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert