Þrettándi maðurinn rís úr hafi

Tólfti maðurinn verður í stúkunni á sunnudaginn, þökk sé þeim …
Tólfti maðurinn verður í stúkunni á sunnudaginn, þökk sé þeim þrettánda. mbl.is/Golli

Þegar tólfti maður íslenska knattspyrnulandsliðsins er kominn í vanda, þá rís sá þrettándi úr hafi. Baráttuandinn og samheldni íslenska landsliðsins innan vallar á EM í knattspyrnu hefur sannarlega smitað út frá sér en fjöldi íslenskra fyrirtækja hafa á undanförnum dögum tekið höndum saman til að tryggja íslenskum stuðningsmönnum farmiðum og miðum á Frakklandsleikinn á Stade de France á sunnudag.

Eftir ævintýralegan árangur Íslands í undanriðlinum og gegn Englendingum í 16-liða úrslitum var óvíst hvort nokkrir af helstu stuðningsmönnum íslenska liðsins og meðlimir Tólfunnar yrðu á áhorfendapöllunum á sunnudag þegar Ísland mætir Frökkum.

Tólfan fór í gegnum strangt ferli til að fá heimild til þess að taka með sér trommur á völlinn og hefur stuðningsmannasveitin stýrt hvatningarhrópum Íslendinga á vellinum af svo mikilli list að eftirtekt hefur vakið um allan heim. Voru því góð ráð dýr þegar fyrirséð var að trommuslátturinn myndi þagna á leikjum Íslands.

„Við áttum alls ekki von á þessu ef ég segi alveg eins og er,” segir Kristinn Hallur Jónsson, gjaldkeri Tólfunnar sem er gríðarlega þakklátur fyrir velviljann sem stuðningsmannasveitin hefur fundið frá íslenskum fyrirtækjum og almenningi. „Við vissum ekki hvað á okkur stóð veðrið í gær.”

Kristinn Hallur Jónsson, gjaldkeri Tólfunnar.
Kristinn Hallur Jónsson, gjaldkeri Tólfunnar. mbl.is/RAX

WOW air býður 12 Tólfumeðlimum til Frakklands og 10 meðlimum var boðið með í leiguflugi auglýsingastofunnar 23 og Netmiða. Kexverksmiðjan Frón, bókaútgáfan Útkall, Íslenski barinn, Kemi, Eimskip og Epli hafa þar að auki styrkt stuðningsmannasveitina til fararinnar, m.a. með miðum á völlinn.

 „Þetta er svo mikið að maður er alveg ruglaður. Við munum skrifa einhvern frábæran þakkarpistil þegar ævintýrið klárast,” segir Kristinn sem telur þó að það verði ekki alveg strax.

„Ég verð að trúa því að strákarnir haldi áfram að koma okkur á óvart og haldi áfram að vaxa. Þeir hafa vaxið með hverjum leiknum. Maður verður að trúa á ævintýrin svo ég hendi 1-0 á þetta,” spáir Kristinn að leikurinn fari á sunnudag.

Erfitt að skilja einhverja eftir

Kristinn segir að búið sé að ákveða hvaða meðlimir Tólfunnar fari út til Frakklands. „Við erum með 50 til 70 manns sem eiga þetta skilið. Það er erfitt að sitja með pennann og velja úr hópnum. Við reyndum að velja fólk sem hefur hjálpað mikið á leikdögum en það eru aðrir sem sitja eftir sem eiga þetta líka fyllilega skilið,” segir Kristinn. „Það verða kannski einhverjir sárir og við erum það líka. Við hefðum helst ekki viljað vera settir á nákvæmlega þessa stöðu en á endanum skilar þetta sér í auknum stuðningi og meiri stemningu,” segir Kristinn.

Augu heimsbyggðarinnar eru á íslensku strákunum. Smáþjóðin sem lagði Englendinga …
Augu heimsbyggðarinnar eru á íslensku strákunum. Smáþjóðin sem lagði Englendinga og Austurríki að velli. Hvernig fer leikurinn á móti Frökkum spyrja margir sig núna. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Hann þarf sjálfur að vera mættur á völlinn klukkan 10 á sunnudagsmorgun þar sem hann mætir með trommur á völlinn. „Við sem setjum upp dagskránna á leikdag fljúgum tíu saman á morgun klukkan 17.15 með leigufluginu,” segir Kristinn.

„Aldrei séð annað eins“

Fyrir leikinn gegn Austurríki þurfti Tólfan að grípa til sérstakra ráðstafana til að þjappa íslenska hópinn saman þar sem stuðningsmannasvæðið í Saint-Denis hverfinu opnaði ekki fyrr en hálftíma fyrir leik vegna lokaprófa hjá skólakrökkum í París. 

Fögnuður í leikslok á móti Englendingum.
Fögnuður í leikslok á móti Englendingum. AFP

Eftir að hafa ráðfært sig við íslensku lögregluna í París greip Tólfan til þess ráðs að smala öllum á írska bar­inn O'Sulli­van's. „Við settum okkur í samband við bareiganda O'Sullivan's 15 tímum fyrir leik. Hann spurði hvort við ættum von á sex til átta hundruð stuðningsmönnum en ég svaraði honum að þeir yrðu á milli tvö og fjögur þúsund,“ segir Kristinn. „Þegar ég mætti daginn eftir, frekar seint útaf stússi fyrir UEFA, þá mætti mér blátt haf af fólki, sex til sjö þúsund manns. Ég hef aldrei séð annað eins,“ segir Kristinn.

Frétt mbl.is: Margir bláir við Rauðu mylluna

„Bareigandinn kom að mér og sagði: You were not kidding, man [ísl. Þú varst ekki að grínast, maður],“ segir Kristinn og hlær. „Þegar ég hringdi í hann í morgun var hann svakalega ánægður að heyra frá mér og sagði Íslendingana hafa verið frábæra. Ekkert vesen á neinum, staðurinn hreinn og allt til fyrirmyndar. Hann vill ekkert frekar en að fá okkur aftur,“ segir Kristinn og bætir við að það sé til skoðunar að hita upp fyrir Frakklandsleikinn með svipuðum hætti og fyrir Austurríkisleikinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert