Útvarpsstjóri sækir vítamín í leikhúsið

Magnús Geir Þórðarson, útvarpsstjóri.
Magnús Geir Þórðarson, útvarpsstjóri. mbl.is/Þórður

Magnús Geir Þórðarson, útvarpsstjóri, ætlar að taka sér nokkurra vikna leyfi í byrjun næsta árs til þess að leikstýra gamanleikriti í Borgarleikhúsinu. Hann segir það ekki merki um að hann sé að hugsa sér til hreyfings í núverandi starfi heldur sé hann að sækja sér vítamín í áframhaldandi verkefni.

Verkið hefur ekki fengið íslenskt nafn en það er eftir leikskáldið Ray Cooney og heitir „Caught in the Net“ á frummálinu, að því er kemur fram í Fréttablaðinu í dag. Á meðal leikara eru Hilmir Snær Guðnason, Ilmur Kristjánsdóttir og Halldóra Geirharðsdóttir.

Í samtali við mbl.is segir Magnús Geir að honum hafi áður boðist tækifæri til að leikstýra eftir að hann tók við starfi útvarpsstjóra en það hafi ekki hentað fram að þessu.

„Ég sá fram á að þarna væri kominn ágætur tími til að þiggja þetta góða boð. Þetta passaði út frá öðrum áætlunum og svo auðvitað það að ég sá fram á skemmtilegt verkefni. Þetta er bráðskemmtilegt leikrit og frábær hópur. Það var þetta samanlagt sem réði því að ég þáði boðið í þetta skiptið,“ segir Magnús Geir.

Leikhúsmaður í grunninn

Ekki liggur fyrir nákvæm tímasetning á því hvenær Magnús Geir fer í leyfi sem útvarpsstjóri en það verður eftir áramót. Hann ætlar að nýta orlof sitt hjá Ríkisútvarpinu til þess að sinna leikstjórastarfinu. Hann segist búast við að vera um sex vikur í burtu en þvertekur fyrir að þetta sé merki um að hann ætli að hverfa úr stóli útvarpsstjóra.

„Ég er útvarpsstjóri og í miðju kafi með fullt af skemmtilegum verkefnum sem við ætlum að sigla í höfn á næstu misserum og árum. Ég er upprunalega listamaður og leikhúsmaður í grunninn. Mér finnst þetta óskaplega spennandi og kærkomið að stíga þarna inn, vinna í þessu upprunalega fagi mínu og um leið sækja mér vítamín í áframhaldandi krefjandi verkefni hjá RÚV,“ segir hann og bætir við að öllum sé hollt að endurnýja sig reglulega og rækta andann. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert