18 starfsmönnum HSU sagt upp

Sjúkrahús HSU á Selfossi og í Vestmannaeyjum.
Sjúkrahús HSU á Selfossi og í Vestmannaeyjum.

Átján starfsmönnum Heilbrigðisstofnunarinnar á Suðurlandi hefur verið sagt upp, sem skipa alls 13,1 stöðugildi. Þetta kemur fram á Eyjar.net.

Þar segir að í bréfi stofnunarinnar til umræddra starfsmanna komi eftirfarandi meðal annars fram:

„Af hálfu HSU var ákvörðun um það tekin að grípa til viðamikilla aðgerða við endurskipulagningu og hagræðingu í starfsemi stofnunarinnar. Aðgerðir þessar tóku til fjölmargra þátta og sviða innan stofnunar og höfðu í för með sér fækkun um 18 starfsmenn í samtals 13,1 stöðugildi.“

Þá kemur fram í fréttinni að stofnunin hafi frá fyrsta degi glímt við fjárhagsvanda sem verði varla leystur á annan hátt en með hærri fjárveitingu frá hinu opinbera.

Að því er fram kemur í Sunnlenska í gær var halli á rekstri stofunarinnar 100 milljónir króna á fyrstu fjórum mánuðum þessa árs. Stofnunin hafi glímt við verulegan fjárhagsvanda sem að hluta sé rekinn til áranna fyrir sameiningu heilbrigðisstofnana á Suðurlandi í eina árið 2014. 

Höfuðstóll HSU hafi verið neikvæður um 350 milljónir króna við lok árs 2014, og stofnunin skuldi talsvert fé, þar á meðal einum lánardrottni um 50 milljónir króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert