Andlát: Sigurður Eymundsson

Sigurður Eymundsson
Sigurður Eymundsson

Sigurður Eymundsson, rafmagnstæknifræðingur og fyrrverandi umdæmisstjóri Rafmagnsveitna ríkisins, lést mánudaginn 27. júní.

Sigurður var fæddur 5. febrúar 1943 á Höfn í Hornafirði, elstur 10 systkina. Foreldrar hans voru Eymundur Sigurðsson hafnsögumaður og Lukka Ingibjörg Magnúsdóttir.

Sigurður vann lengst af hjá Rafmagnsveitum ríkisins, fyrst sem rafvirki og flokksstjóri árið 1967 en síðar sem rafveitustjóri á Höfn í eitt ár. Eftir að Sigurður lauk tæknifræðinámi í Danmörku í árslok 1973 kom hann til starfa hjá Rarik að nýju og starfaði þá á framkvæmdadeild.

Árið 1978 varð Sigurður umdæmisstjóri Rarik á Norðurlandi vestra, með aðsetur á Blönduósi, og gegndi því starfi í 12 ár, eða þar til hann varð umdæmisstjóri á Austurlandi árið 1990, með aðsetur á Egilsstöðum. Við skipulagsbreytingar á árinu 2004 varð hann framkvæmdastjóri virkjanasviðs Rarik þar sem undir heyrðu allar virkjanir og aflvélar og var það undanfari stofnunar sérstaks fyrirtækis sem nú heitir Orkusalan.

Sigurður starfaði einnig í fjölda nefnda tengdra orkumálum, t.d. samninganefnd um byggingu Blönduvirkjunar og sem trúnaðarmaður Landsvirkjunar í samráðsnefnd um Blönduvirkjun, auk annarra nefnda á vegum Samorku, samtaka orku- og veitufyrirtækja á Íslandi, en hann var um tíma í stjórn þeirra samtaka. Sigurður lét af störfum hjá Rarik á árinu 2007 og tók eftir það virkan þátt í rekstri og uppbyggingu veitinga- og ferðaþjónustufyrirtækja á Egilsstöðum ásamt eiginkonu sinni allt til ársins 2013.

Sigurður starfaði ötullega að fjölbreytum félagsmálum hvar sem hann bjó og sinnti m.a. ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn og í sveitarstjórnum. Hann var í sveitarstjórn Blönduóshrepps um tíma og tók þátt í ótal nefndum á vegum hins opinbera, sérstaklega á sveitarstjórnarstigi. Sigurður var mikill flugáhugamaður, en hann var með einkaflugmannsréttindi og var virkur í starfi áhugaflugmanna, bæði á Blönduósi og Egilsstöðum.

Sigurður var tónlistarunnandi og harmonikkuleikari af lífi og sál. Hann byrjaði sem unglingur að spila fyrir dansi og lék á harmonikku af ástríðu allt til dauðadags. Hann tók þátt í félagsskap harmonikkuunnenda þar sem hann bjó hverju sinni og má þar nefna Harmonikkufélag Héraðsbúa, Félag harmonikkuunnenda í Reykjavík og Samband íslenskra harmonikkuunnenda. Í þeim félögum sem Sigurður starfaði var hann undantekningarlaust valinn til trúnaðarstarfa, ýmist sem formaður viðkomandi félags en oftast sem gjaldkeri.

Eftirlifandi eiginkona Sigurðar til 54 ára er Olga Óla Bjarnadóttir og eignuðust þau þrjú börn og níu barnabörn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert