BHM gagnrýnir niðurstöðu kjararáðs

Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM.
Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM. mbl.is/Styrmir Kári

Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður Bandalags háskólamanna (BHM), segir ákvörðun kjararáðs um almenna launahækkun hjá þeim hópum sem heyra undir úrskurði ráðsins byggja á misskilningi. Kjararáð hækkaði almenn laun hjá nokkrum launahópum um 7,15 prósent.

Kjararáð vísaði til gerðardóms sem úrskurðaði í máli 18 aðildarfélaga BHM við ákvörðun prósentutölunnar sem launin voru hækkuð um. Þórunn bendir aftur á móti á að kjararáð leggi 1,65 prósenti sem var skv. úrskurði gerðardóms til útfærslu menntunarákvæða og skeyti því við 5,5 prósenta launahækkunina sem aðildarfélög BHM fengu skv. úrskurði gerðardóms.

„Í gerðardómi eru þessi 1,65 prósent ætluð til útfærslu menntunarákvæðis skv. stofnanasamningum. Þau eru ekki hugsuð þannig að allir fái þá hækkun, mér sýnist þarna vera á ferð einhver misskilningur, eða þá túlkun á gerðardómi sem við hjá BHM könnumst ekki við,“ segir Þórunn.

Hún segir að það hafi ekki heldur verið túlkun kjara- og mannauðssýslu ríkisins, sem er viðsemjandi fyrir hönd fjármálaráðherra við ríkisstarfsmenn. „Eftir að hafa rýnt þetta, þá vekur það athygli okkar að þetta sé gert með þessum hætti. Þessi ákvörðun á ekki skjól í gerðardómi,“ segir Þórunn. „Þeir eru að fá meira en það sem gerðardómur dæmdi félagsmönnum BHM í fyrra.“

Frétt­ir mbl.is um úr­sk­urði kjararáðs:

mbl.is - Embættismenn tekjuhærri en ráðherrar

mbl.is - Kjararáð hækkaði laun um 7,15 pró­sent

mbl.is - Laun­in hækka um allt að 40%

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert