Búið að laga bilun á Keflavíkurflugvelli

Framkvæmdir við nýtt farangursflokkunarkerfið hafa staðið yfir frá því í …
Framkvæmdir við nýtt farangursflokkunarkerfið hafa staðið yfir frá því í haust.

Bilun í nýju farangursflokkunarkerfi á Keflavíkurflugvelli olli um og yfir klukkutíma seinkun á mörgum flugferðum þaðan í morgun. Samkvæmt upplýsingum Isavia er búið að laga bilunina en hún stóð yfir í um klukkustund. 

Það var um sjö leytið sem bilun í flokkara fyrir farangur úr tengiflugi bilaði á Keflavíkurflugvelli í morgun, að sögn Gunnars K. Sigurðssonar, markaðsstjóra Isavia. Það olli töfum á flugferðum en tíma tók að koma farangri í réttar vélar. Tafirnar höfðu hins vegar ekki áhrif á innritun farþega.

Gunnar segir að verið sé að skoða bilunina til að koma í veg fyrir að hún endurtaki sig. Flokkarinn er hluti af nýju farangursflokkunarkerfi sem Isavia hefur verið að innleiða undanfarnar vikur.

Á vefsíðu Keflavíkurflugvallar má sjá að seinkanirnar hafa verið allt frá tíu mínútum upp í einn og hálfan tíma. Að minnsta kosti einni vél Icelandair sem er á leið til Parísar seinkar enn frekar vegna þess að töfin í morgun olli því að hún missti lendingarpláss sitt á flugvellinum úti, að sögn blaðamanns mbl.is sem er um borð. Hún átti að fara í loftið kl. 7:45.

Frétt mbl.is: Seinkanir á Keflavíkurflugvelli

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert