Engar vísbendingar um Heklugos

Hekla.
Hekla. mbl.is/Sigurður Sigmundsson

Núverandi ástand Heklu hefur varað í tíu ár og gæti allt eins varað í ár eða áratugi í viðbót. Engar sérstakar vísbendingar eru um að gos í eldstöðinni sé um það bil að bresta á. Þetta skrifar Páll Einarsson jarðfræðingur á vef Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands. Hvetur hann fólk til að halda ró sinni.

Í pistlinum segir Páll að ein algengasta spurningin sem eftirlitsfólk með eldstöðvum landsins fái frá almenningi og fjölmiðlum fjalli um líkur á gosi. Ógerningur sé hins vegar að spá fyrir um slíka atburðarás af nákvæmni. Því verði að fylgjast náið með eldfjöllum á mælitækjum.

Tiltölulega nýlegt sé að Hekla gjósi títt og reglulega síðustu áratugina. Mun algengara sé að eldfjöll gjósi óreglulega. Frá síðasta gosi árið 2000 hafi kvikuþrýstingur í fjallinu aukist og árið 2006 hafi hann verið búinn að ná þeim sem var fyrir gosið sex árum áður.

Allan þennan tíma síðan hafi þrýstingurinn aukist umfram það. Síðasta mæling hafi verið gerð í júní og hún staðfest þrýstingsaukninguna.

„En þýðir þetta að Hekla sé um það bil að springa í loft upp eða að miklar hamfarir séu í aðsigi með tilheyrandi truflunum á flugumferð, eins og lesa má í erlendum fjölmiðlum?  Hér þurfa menn að halda ró sinni. Í fyrsta lagi er þetta ástand Heklu búið að vara í 10 ár. Engar sérstakar vísbendingar eru um að að gos sé um það bil að bresta á. Eldstöðin gæti allt eins haldið í sér í nokkur ár eða áratugi í viðbót,“ skrifar Páll.

Fyrri gos trufluðu flug ekki mikið

Engin aðferð sé þekkt til að ákvarða með löngum fyrirvara hvenær næsta gos verður. Frá fyrri reynslu verði að teljast líklegt að fjallið gefi ekki frá sér merki um yfirvofandi gos fyrr en hálftíma eða klukkustund áður en kvika kemur til yfirborðs. Það sé undir hælinn lagt hvort sá fyrirvari nýtist til að gefa út viðvörun um gos.

„Þetta er umhugsunarefni vegna vaxandi ferðamennsku á fjallinu. Gönguhópar í hlíðum Heklu geta ekki reiknað með að fá viðvörun sem gagn er í. Það er einnig áhyggjuefni margra að fjölfarin flugleið liggur beint yfir topp Heklu,“ segir Páll.

Síðustu gos í Heklu árin 1970, 1980-81, 1991 og 2000 hafi hins vegar ekki valdið mikilli truflun á flugi. Því telur Páll ekki neina sérstaka ástæðu til hrakspáa um næsta gos í Heklu, þótt auðvitað þurfi alltaf að vera á varðbergi.

Pistill Páls Einarsson um Heklugos á vef Jarðvísindastofnunar HÍ

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert