Fínasta veður yfir leiknum

Glaðir Íslendingar á Arnarhóli á mánudag.
Glaðir Íslendingar á Arnarhóli á mánudag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það verður fínasta veður á Arnarhóli á sunnudaginn; hæglætisveður, skýjað og líklega þurrt. Hitinn verður um 12 til 13 stig,“ segir Þorsteinn V. Jónsson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands.

Mbl.is ræddi við Þorstein um helgarveðrið, bæði vegna ferðalaga og vegna leiks Íslands og Frakk­lands á sunnu­dags­kvöldið klukk­an 19. Eins og kunnugt er verður hann sýndur á risaskjá á Arnarhóli og má búast við því að þúsundir komi saman til að styðja íslenska landsliðið.

Frétt mbl.is: Risaskjáir víða á sunnudag

Helg­in sem nú geng­ur í garð er fyrsta helg­in í júlí. Helgi sem oft er ein mesta ferðahelgi sum­ars­ins. Að sögn Þorsteins er norðanátt í kortunum sem þýðu að kalt og blautt verður fyrir norðan og austan. „Hlýindiskaflinn er búinn þar í bili, en kemur vonandi seinna í sumar,“ segir hann.

Þokkalegt verður verður hins vegar sunnanlands; skýjað með köflum en ekki mikil sól. Búast má við skúrum í dag og á morgun en sunnudagurinn virðist ætla að vera þurr að sögn Þorsteins.

Besta ferðaveðrið verður á sunnan og vestanverðu landinu en gera má ráð fyrir 15 til 17 stiga hita. Svalara verður fyrir norðan og austan, og verður veður þar frekar leiðinlegt að sögn Þorsteins.

Eftir helgi má svo búast við hæglætisveðri, skýjuðu með skúrum á stöku stað og hita á bilinu 10 til 15 gráður.

Veðurhorfur á landinu næsta sólarhringinn:

Norðan og norðaustan 8-15 m/s, hvassast um landið norðvestanvert. Rigning norðan- og austanlands. Skýjað annars staðar og úrkomulítið. Hægari vindur á morgun. Skýjað og rigning af og til um landið norðanvert, en skýjað með köflum og stöku skúrir sunnantil. Hiti frá 6 stigum fyrir norðan, upp í 16 stig syðst.

Á sunnudag:
Norðvestan 5-10 norðaustantil og dálítil rigning. Heldur hægari vindur og bjart að mestu sunnan- og vestanlands. Hiti frá 6 stigum við norðausturströndina, upp í 17 stig á Suðurlandi. 

Á mánudag:
Fremur hæg norðlæg eða breytileg átt. Skýjað að mestu og þurrt að kalla norðaustan- og austanlands. Bjart í öðrum landshlutum, en stöku skúrir síðdegis. Hiti breytist lítið. 

Á þriðjudag, miðvikudag og fimmtudag:
Hæg breytileg átt eða hafgola. Bjart með köflum og líkur á síðdegisskúrum. Hiti víða 10 til 15 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert