Gagnrýna samþykkt tillagna Hafró

mbl.is/Helgi Bjarnason

Stjórn Landssambands smábátaeigenda gagnrýnir stjórnvöld fyrir aðhaldsleysi gagnvart Hafrannsóknarstofnun og segir það orðna lensku að sjávarútvegsráðherra hreyfir ekki við tillögun stofnunarinnar um árlegan heildarafla þorsks.

„Skiptir það engu þótt spár sérfræðinga [stofnunarinnar] um þróun hrygningar- og veiðistofns skeiki tugum prósenta milli ára. Stjórn LS átelur slík vinnubrögð og minnir á að hér er um ákvörðun að ræða sem skiptir milljörðun fyrir íslenskt þjóðarbú,“ segir í ályktun LS.

Stjórnin segist í ályktuninni hafa áhyggjur er varða uppbyggingu þorskstofnsins en þrátt fyrir að veiðihlutfall hafi ár eftir ár verið innan þeirra marka sem afli samkvæmt aflareglum ætti að vera, sé það skoðun Hafró að þorskstofninn muni minnka á næsta ári.

„Öll fyrirheit um 300 þúsund tonna heildarafla virðast vera í ljósárafjarlægð,“ segir stjórnin.

„Stjórn Landssambands smábátaeigenda skorar á sjávarútvegsráðherra að endurskoða ákvörðun sína frá 25. júní sl. þegar hann ákvað að fara alfarið eftir ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunnar um að þorskafli fyrir næsta fiskveiðiár verði aðeins aukinn um 2,1% - 5000 tonn.

Ákvörðunin er sérstaklega gagnrýniverð þegar litið er til þess að stofnunin skilar auðu við hverjar séu ástæður þess að meðalþyngd hafi lækkað milli ára. Álit stofnunarinnar um lága meðalþyngd er andstætt áliti sjómanna og sjást þess engin dæmi í innvigtuðum afla eða nýtingartölum hjá fiskvinnslunni.

Þá skal einnig bent á að tölugildi úr togararalli í mars 2016 á meðalþyngd 5 ára fisks er ótrúverðugt þegar litið er til áratuga samfelldra mælinga stofnunarinnar sem allar sýna hærri meðalþyngd en nú er byggt á,“ segir m.a.

Ályktunina má finna á vefsíðu LS.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert