Jón Þór íhugar að gefa kost á sér

Jón Þór Ólafsson, fyrrverandi þingmaður Pírata.
Jón Þór Ólafsson, fyrrverandi þingmaður Pírata. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Ég er ekki búinn að gera það upp við mig. Það eru nokkrir hlutir sem ég hef verið að hugsa um,“ segir Jón Þór Ólafsson fyrrverandi þingmaður Pírata aðspurður hvort hann muni gefa kost á sér fyrir Pírata í næstu Alþingiskosningum.

Jón Þór var kjörinn á þing í kosningunum 2013 en lét af þingmennsku í fyrra eftir hálft kjörtímabil.

„Ég hef sagt það áður að ef þetta verður stór og nýr þingflokkur þá er ganglegt að hafa einhvern þar sem þekkir ferla þingsins. Það kostar aðra samstarfsmenn á þingi ekkert að svindla á þér. Andstæðingar munu svindla á þér ef þeir komast upp með það,“ segir Jón Þór.

„Ef þú þekkir ekki leikreglurnar á þingi þá tapast gríðarlegur tími og tækifæri. Ég hef sagt að ef þetta verður stór þingflokkur þá muni ég gefa kost á mér til þings, kannski bara í eitt ár. Ég held það taki ekki meira en eitt ár að koma nýjum þingflokki inn í leikreglurnar.“

Helgi Hrafn Gunnarsson þingmaður Pírata tilkynnti í dag um að hann muni ekki gefa kost á sér fyrir komandi kosningar, en að hann muni frekar gera það í þar næstu kosningum. 

Þar sem reynsla Helga muni því ekki nýtast á þingi á næsta kjörtímabili segir Jón Þór það auka líkurnar á að hann fari sjálfur fram. 

„Að sjálfsögðu því það er markmiðið að nýir þingmenn læri leikreglurnar,“ segir Jón Þór.

Góð ákvörðun Helga Hrafns

Hann segir ákvörðun Helga Hrafns að gefa ekki kost á sér í þetta skiptið vera góða. 

Sjá frétt mbl.is: Helgi Hrafn ekki fram

„Ég held þetta sé góð ákvörðun. Hann er búinn að vera í rúm þrjú ár á þingi. Alþingi er svolítil sápukúla. Eins og með allar skiplagsheildir glímir Alþingi við þann vanda að að það sem gerist innan skipulagsheildarinnar er svo aðkallandi. En það sem er að gera fyrir utan verður oft útundan og þú sérð það síður eft þú ert fyrir innan.“

„Nú hefur hann líka tækifæri loksins til að vinna úr þessum hafsjó þekkingar sem hann hefur öðlast og getur búið til verkfæri sem nýtast öllum,“ segir Jón Þór.

Jón Þór hefur sjálfur að undanförnu verið að vinna að vefsíðu sem á að útskýra fyrir fólki hvernig störf þingsins ganga fyrir sig. 

„Ég er að leggja lokahönd á fyrsta hluta af vefsíðu um það hvernig þingið virkar. Ég er búinn að kaupa lénið thingid.is. Vefsíðan fer í loftið á næstu vikum. Þar er tekið saman hvaða ákvarðanir er verið að taka á þingi, hver hefur valdheimildir til að taka þær og á hvaða vettvöngum er verið að taka þær. Fólk getur þá á mjög einfaldan hátt fengið upplýsingarnar beint í æð hvernig leikreglurnar eru,“ segir Jón Þór.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert