Ráðist á Íslending í París

Íslenska karlalandsliðið fagnar sigri í leiknum gegn Englandi í Nice.
Íslenska karlalandsliðið fagnar sigri í leiknum gegn Englandi í Nice. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Ráðist var á Íslending á bar í París í gærkvöldi. Maður réðst á hann, braut flösku á andliti hans, svo hann hlaut alvarlega áverka. Nef hans rifnaði af að hluta við árásina. Árásarmaðurinn var handtekinn.

Þetta kom fram í hádegisfréttum RÚV.

Maðurinn sem ráðist var á heitir Arnar Þór Gíslason og sagði hann í samtali við RÚV að árásarmaðurinn væri Englendingur og hefði stundað hnefaleika. Hann segist rekja árásina til sigurs Íslands á Englandi. Arnar segir að maðurinn hafi spurt hann og félaga sinn hvort þeir væru Íslendingar, þeir hafi svarað því játandi. „Og þá bara búmm,“ sagði Arnar. 

Arnar var fluttur á sjúkrahús þar sem gert var að sárum hans. Hann segir árásarmanninn enn í haldi lögreglu.

Arnar segist ætla að halda sínu striki og fara á leik Íslands og Frakklands á sunnudag. „Fyrst að augun sluppu, sem betur fer, þá getur maður horft á leikinn,“ sagði hann við RÚV. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert