Seinkanir á Keflavíkurflugvelli

Flugvallarstarfsmenn bíða eftir farangri til að hlaða vél á Keflavíkurflugvelli …
Flugvallarstarfsmenn bíða eftir farangri til að hlaða vél á Keflavíkurflugvelli í morgun. ljósmynd/mbl.is

Tafir hafa orðið á millilandaflugi frá Keflavíkurflugvelli í morgun, að því er virðist vegna bilunar í sjálfvirkum farangursflokkunarbúnaði. Blaðamaður mbl.is á staðnum segir að farþegum í flugvél hans hafi verið sagt að handflokka þurfi allan farangur.

Uppfærð frétt: Búið að laga bilunina

Blaðamaður mbl.is er einn farþega um borð í vél Icelandair sem átti að fara kl. 7:45 frá Keflavík. Þegar farþegarnir voru sestir úti í vél sagði flugstjórinn að seinkun yrði á fluginu vegna bilunarinnar. Hann gat þó ekki sagt hversu löng hún yrði. Þegar mbl.is náði tali af blaðamanninum höfðu farþegarnir beðið í tæpa klukkustund í vélinni.

Á vefsíðu Keflavíkurflugvallar má sjá að í það minnsta ellefu flugvélar sem áttu að fara í loftið frá klukkan 7:35 til 8:00 eru enn ekki farnar af stað þegar þetta er skrifað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert