Þorvaldur læknir með 17 milljónir á mánuði

Þorvaldur Ingvarsson.
Þorvaldur Ingvarsson.

Þorvaldur Ingvarsson, bæklunarskurðlæknir og yfirmaður rannsókna og þróunar hjá Össuri, er með 17 milljónir króna í tekjur á mánuði samkvæmt tekjublaði Frjálsrar verslunar sem kom út í morgun. Þor­vald­ur er í 12. sæti lista ríkisskattstjóra yfir hæstu gjald­end­ur sem gefinn var út í gær. Í fyrra nýtti Þorvaldur sér ákvæði í kauprétt­ar­samn­ingi sín­um og inn­leysti 105 millj­óna hagnað af sölu á bréf­um í Öss­uri.

Frétt mbl.is: Rýnt í skattalistann

Í tekjublaði Frjálsrar verslunar er birtur listi yfir tekjur rúmlega 3.725 Íslendinga. Könnunin byggist á álögðu útsvari eins og það birtist í álagningarskrám. Frjáls verslun áréttar að í einhverjum tilvikum kann að vera að skattstjóri hafi áætlað tekjur.

Á lista blaðsins yfir tekjuhæstu lækna og tannlækna er Björn Zoëga, fyrrverandi forstjóri Landspítalans og nú forstjóri bæklunarspítalans GHP í Stokkhólmi, í 2. sæti með 3,8 milljónir króna í tekjur á mánuði og Þorsteinn Jóhannesson, yfirlæknir Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða með rúmlega 3,6 milljónir.

Forstöðulæknir Hjartaverndar, Vilmundur G. Guðnason, var samkvæmt útreikningum blaðsins með 3,2 milljónir króna í tekjur að meðaltali á mánuði á síðasta ári. Þá var Ásbjörn Jónsson, röntgenlæknir og dósent við Háskóla Íslands með rúmlega 3 milljónir króna á mánuði. 

Fara þarf nokkuð langt niður listann yfir tekjur lækna og tannlækna til að finna konu. Grethe Have, heimilislæknir, er efst kvenna á listanum með 2,66 milljónir króna í tekjur á mánuði.

Enn neðar þarf að fara til að finna fyrsta tannlækninn á listanum en sá heitir Geir Atli Zoëga og var samkvæmt útreikningum blaðsins með um 2,45 milljónir í tekjur á mánuði á síðasta ári.

Í tekjublaði Frjálsrar verslunar er tekið fram að um útvarsskyldar tekjur á árinu 2015 sé að ræða og þurfa þær ekki að endurspegla föst laun viðkomandi. „Munurinn getur falist í launum fyrir setu í nefndum og önnur aukastörf og hlunnindi vegna kaupréttarsamninga. Jafnframt hafa margir tekið út séreignarsparnað en hann telst með í útsvarsskyldum tekjum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert