Treyjurnar koma ekki í dag

Margir íslensku áhorfendurnir á EM klæðast Errea treyjunni sem blaðamenn …
Margir íslensku áhorfendurnir á EM klæðast Errea treyjunni sem blaðamenn Sport & Style völdu þá flottustu á EM. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Ekki er von á landsliðstreyjum í verslanir hér á landi í dag líkt og áður hafði komið fram þar sem sendingin er ekki komin til landsins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Errea á Íslandi. 

Beðið er eftir svörum frá þeim sem sér um að flytja treyjurnar. Vill fyrirtækið vita hvað fór úrskeiðis í ferlinu og hvenær hægt verður að afhenda sendinguna. 

„Unnið er hörðum höndum að því að koma henni til landsins.  En það er ljóst að það verður ekki í dag. Spennustig þjóðarinnar er mjög hátt þessa dagana og erum við í áfalli yfir því að staðan sé svona. Viljum við því biðja fólk að halda ró sinni og sýna þessu skilning,“ segir í tilkynningunni.

Treyjan sögð vera skyldueign

Öskubuskuævintýri íslenska landsliðsins á EM hefur enn einu sinni ratað í heimspressuna en í þetta skiptið eru það íslensku treyjurnar sem AFP-fréttaveitan gerir að umfjöllunarefni sínu.

„Sigurganga Íslands í átt að undanúrslitum EM hefur komið knattspyrnuheiminum á óvart - og nú eiga nýju stuðningsmennirnir í vandræðum með að koma höndum yfir treyju íslenska liðsins,“ segir í upphafsorðum fréttar AFP.

Þar er greint frá því að bláa landsliðstreyja íslenska liðsins sé augnkonfekt og sá gripur mótsins sem er skyldueign eftir sigurinn gegn Englendingum í 16-liða úrslitum.

AFP ræddi við Ómar Smárason, upplýsingafulltrúa KSÍ, sem sagði eftirspurnina eftir treyjum landsliðsins vera 1800 prósentum umfram það sem ráðgert var fyrir mót. Netpantanir hafa hrúgast inn hjá umboðsaðila Errea á Íslandi og hjá framleiðandanum á Ítalíu.

„Miðað við tölvupóstana og Facebook-skilaboðin sem við höfum fengið þá já, treyjurnar eru uppseldar,“ sagði Ómar í samtali við AFP. Hann bætir því að á sama tíma og það sé auðvitað jákvætt að treyjurnar séu uppseldar þá sé það afar miður að það geti færri fengið treyju en vilja.

„Við höfum trú á Errea og erum vissir um að allir fái treyjurnar sínar á endanum,“ segir Ómar. 

AFP bendir á að þetta sé sams konar vandamál og kom upp hjá íþróttavöruframleiðandanum Puma eftir glæsilegan árangur, og óvæntan, Leicester City-liðsins í ensku deildinni síðasta haust. Treyjur liðsins kláruðust í janúar, fjórum mánuðum áður en deildin kláraðist.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert