EM hefur áhrif á útileguáhugann

Frá Básum á Goðalandi.
Frá Básum á Goðalandi. mbl.is/Árni Sæberg

Fyrsta helgin í júlí hefur lengi verið ein af stærri ferðahelgum sumarsins hér á landi. Svo virðist þó sem árangur Íslands á EM í knattspyrnu karla hafi einhver áhrif í ár á ferðaþorsta þjóðarinnar og gæti orsakað að færri Íslendingar kíktu í útilegu en ella. Skálavörður í Básum á Goðalandi segir talsvert af fólki á svæðinu núna um helgina, en þegar litið sé yfir sumarið sé örlítið minni umferð en í fyrra.

Þórhalla Sigurgeirsdóttir hefur staðið vaktina síðan í lok maí í Básum og segir hún að fyrsta helgin í júlí sé ávallt stór á Þórsmerkursvæðinu. Þokkalega margt sé á svæðinu og fjöldi fólks hafi gengið yfir Fimmvörðuhálsinn og verið að koma niður í gær. 

Aðspurð um áhrif af fótboltaæðinu sem hefur heltekið þjóðina undanfarið segir Þórhalla að hún verði vel vör við það. Þannig hafi fjölmargar fyrirspurnir komið til þeirra þessa helgina um hvort sjónvarpsskjár sé á staðnum þar sem hægt væri að fylgjast með leik Íslands og Frakklands í kvöld. Engan slíkan er þó að finna í Básum og segir Þórhalla að fólk virðist miða við að fara heim tímanlega til að ná leiknum.

Fyrir nokkrum dögum var vegurinn inn í Þórsmörk lagaður og segir Þórhalla að við það tækifæri hafi vöðin í Stakkholtsá og Hvanná verið löguð og séu nú vel fær. Talsvert vatn hafi aftur á móti verið í Krossá, en þó ekki þannig að það sé til vandræða.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert