Auknar líkur á efnismeðferð

Frá aðalmeðferð Al Thani-málsins í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Frá aðalmeðferð Al Thani-málsins í Héraðsdómi Reykjavíkur. mbl.is/Eggert

Líkurnar á því að Mannréttindadómstóll Evrópu taki hluta Al Thani-málsins svonefnda til efnismeðferðar hafa aukist eftir að dómstóllinn krafði íslensk stjórnvöld svara vegna málsins. Það veltur þó allt á svörum stjórnvalda. Þetta segir dr. Gunnar Þór Pétursson, dósent við lagadeild Háskólans í Reykjavík, í samtali við mbl.is.

Eins og mbl.is greindi frá á föstudag hefur innanríkisráðuneytinu borist bréf frá Mannréttindadómstól Evrópu þar sem óskað er svara stjórnvalda við fjórum efnislegum spurningum um málsmeðferðina í Al Thani-málinu.

Mann­rétt­inda­dóm­stóll­inn sendi bréfið 20. júní síðastliðinn. Fá ís­lensk stjórn­völd frest til 10. októ­ber næst­kom­andi til þess að svara spurn­ing­un­um. Langflest mál sem kærð eru til dómstólsins, um 97-98%, eru felld niður og ekki tekin til efnislegrar meðferðar.

Í bréfinu er stjórn­völd­um einnig boðið að ná sátt­um í mál­inu.

Frétt mbl.is: Krefst svara um Al Thani-málið

Sak­born­ing­arn­ir fjór­ir í málinu voru sak­felld­ir fyr­ir umboðssvik og markaðsmis­notk­un af Hæsta­rétti í fe­brú­ar í fyrra. Hreiðar Már Sig­urðsson, fyrr­ver­andi for­stjóri Kaupþings, var dæmd­ur í fimm og hálfs árs fang­elsi, Sig­urður Ein­ars­son, fyrr­ver­andi stjórn­ar­formaður bank­ans, í fjög­urra ára fang­elsi, Ólaf­ur, sem var einn stærsti hlut­hafi bank­ans, í fjög­urra og hálfs árs fang­elsi og Magnús Guðmunds­son, fyrr­ver­andi for­stjóri Kaupþings í Lúx­em­borg, sömu­leiðis í fjög­urra og hálfs árs fang­elsi.

Þeir vísuðu mál­inu til Mann­rétt­inda­dóm­stóls Evr­ópu þar sem þeir töldu að brotið hefði verið á rétt­ind­um þeirra, bæði við rann­sókn máls­ins og við meðferð þess fyr­ir dóm­stól­um. Þannig hefðu þeir ekki fengið að und­ir­búa vörn sína nægi­lega vel, ekki fengið tæki­færi til að boða lyk­il­vitni í skýrslu­töku og þá hefði verið brotið á friðhelgi einka­lífs þeirra.

Hluti málsins felldur niður

Gunnar Þór segir að í bréfi Mannréttindadómstólsins komi fram að hluti málsins hafi þegar verið felldur niður.

„Dómstóllinn ákveður að fella niður hluta málsins, en heldur áfram að skoða mikilvægan hluta þess og ákveður að kalla eftir skýringum frá íslenskum stjórnvöldum. Hann spyr þau ákveðinna spurninga og gefur þeim tækifæri til þess að skýra málið,“ segir hann. Engin vissa sé um hvort dómstóllinn ákveði að taka málið til efnismeðferðar, en segja megi, heilt yfir, að líkurnar á því hafi aukist.

„En það veltur allt saman á svari íslenskra stjórnvalda hvort dómstóllinn telji málið tækt til efnismeðferðar. Hann getur enn hafnað að taka málið til efnismeðferðar þegar hann hefur fengið svör við þessum spurningum sem hann er sáttur við.“

Gæti tekið einhver ár

Taki hann málið til efnismeðferðar gæti það farið á tvo vegu. Annað hvort gæti dómstóllinn komist að þeirri niðurstöðu að einhver eða öll atriði málsins leiði til áfellisdóms yfir íslenska ríkinu eða að hann kveði úr um að það hafi ekki átt sér stað brot á Mannréttindasáttmála Evrópu.

Málsmeðferðin gæti jafnframt hlaupið á einhverjum árum vegna mikils málafjölda hjá dómstólnum, að sögn Gunnars Þórs. „Íslensk stjórnvöld hafa frest til 10. október til að svara og það má alveg búast við því, ef málið verður tekið til efnismeðferðar, að það taki einhver ár að fá niðurstöðu,“ segir hann.

Höfuðstöðvar Mannréttindadómstóls Evrópu í Strassburg.
Höfuðstöðvar Mannréttindadómstóls Evrópu í Strassburg. Ljósmynd/ECHR
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert