Máli gegn Kaupþingsmönnum vísað frá

Hreiðar Már Sigurðsson, Sigurður Einarsson, Magnús Guðmundsson og Ingólfur Helgason, …
Hreiðar Már Sigurðsson, Sigurður Einarsson, Magnús Guðmundsson og Ingólfur Helgason, auk Ólafi Ólafssyni var öllum stefnt í málinu. Héraðsdómur sagði Samtök sparifjáreigenda ekki heimilt að stefna þeim á Vesturlandi vegna dvalar þeirra á Kvíabryggju. Mynd/mbl.is

Máli Samtaka sparifjáreigenda gegn fyrrverandi forsvarsmönnum Kaupþings var vísað frá Héraðsdómi Vesturlands á föstudaginn, en samtökin fóru fram á 902 milljóna skaðabætur vegna markaðsmisnotkunar forsvarsmannanna. Ástæða frávísunarinnar er að ekki var stefnt fyrir réttu varnarþingi.

Frétt mbl.is: Vilja 902 milljónir frá Kaupþingsmönnum

Í málinu stefndu samtökin, sem Bolli Héðinsson er í forsvari fyrir, þeim Hreiðari Má Sigurðssyni, Ingólfi Helgasyni, Magnúsi Guðmundssyni, Ólafi Ólafssyni og Sigurði Einarssyni vegna tjóns sem samtökin töldu sig hafa orðið fyrir vegna markaðsmisnotkunar sem mennirnir höfðu verið dæmdir fyrir.

Dómurinn segir óumdeilt að allir stefndu eigi lögheimili utan umdæmis Héraðsdóms Vesturlands; Hreiðar, Ingólfur og Magnús í Lúxemborg, Ólafur í Sviss og Sigurður í Reykjavík. Töldu samtökin að ef þeir væru með fasta búsetu utan lögheimilis mætti sækja þá í þeirri þinghá. Þá mætti einnig sækja þá þar sem stefnan hefði verið birt ef þeir væru búsettir erlendis. Mennirnir hafa allir afplánað dóma á Kvíabryggju að undanförnu.

Dómurinn tók ekki undir þessar röksemdir samtakanna og vísaði til þess að fangelsi teldist ekki ígildi fastrar búsetu. „Með hliðsjón af þessu verður ekki talið að stefnanda hafi verið heimilt að höfða mál þetta hér fyrir dómi á hendur stefndu Hreiðari Má, Magnúsi, Ólafi og Sigurði á grundvelli framangreindrar heimilisvarnarþingsreglu,“ segir í dómnum.

Samtökin þurfa að greiða hverjum mannanna 300 þúsund krónur í málskostnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert