Áfram í haldi vegna ítrekaðra brota gegn mæðgum

Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. mbl.is/Brynjar Gauti

Hæstiréttur staðfesti í dag úrskurð héraðsdóms um áframhaldandi gæsluvarðhald yfir karlmanni sem hefur ítrekað brotið nálgunarbann og brottvísun af heimili stjúpdætra sinna og móður þeirra, sem jafnframt er eiginkona mannsins. Þá er maðurinn grunaður um að hafa í ár­araðir brotið gegn mæðgun­um með ít­rekuðum kyn­ferðis­brot­um, lík­am­legu of­beldi og hót­un­um.

Í úrskurði héraðsdóms um gæsluvarðhaldið kom fram að maðurinn hefði meðal annars játað að hafa sent annari stjúpdóttur sinni skilaboð í mars á þessu ári þar sem hann bað hana um kynlíf. Sagði hann við skýrslutöku að það hefði verið óvart. Þá játaði hann að hafa hótað eiginkonu sinni að hann myndi „ríða henni í rassgat“ ef hún kallaði til lögreglu. Sagði hann við skýrslutökuna að það hefði aftur á móti verið sagt í gríni.

Fyrir dóminum var upplýst að rannsókn væri að ljúka og yrði málið sent til héraðssaksóknara í næstu viku. Taldi dómurinn ekki rétt að fallast á beiðni mannsins um að gæsluvarðhaldinu yrði markaður skemmri tími en lögreglan krafðist. Staðfesti Hæstiréttur áframhaldandi gæsluvarðhald yfir manninum til 28. júlí.

Mbl.is fjallaði ítarlega um mál mannsins fyrir um mánuði, en það vakti meðal annars umræðu um stöðu kvenna sem eru fastar í vítahring árum saman, þar sem eiginmenn þeirra komast ítrekað upp með að brjóta nálgunarbann.

Frétt mbl.is: Grunaður um kynferðisafbrot í áraraðir

Frétt mbl.is: Fastar í vítahringnum árum saman

Frétt mbl.is: Ítrekuð brot á nálgunarbanni erfið

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert