Vilja halda málinu til streitu

Hreiðari Má Sig­urðssyni, Sig­urði Ein­ars­syni, Magnúsi Guðmunds­syni og Ingólf­i Helga­syni, …
Hreiðari Má Sig­urðssyni, Sig­urði Ein­ars­syni, Magnúsi Guðmunds­syni og Ingólf­i Helga­syni, auk Ólafs Ólafs­sonar, var öll­um stefnt í mál­inu. Ljósmynd/mbl.is

„Við erum að kanna okkar stöðu,“ segir Bolli Héðinsson, stjórnarformaður Samtaka sparifjáreigenda, í samtali við mbl.is um úrskurð Héraðsdóms Vesturlands sem vísaði á föstudag máli samtakanna gegn fyrrverandi forsvarsmönnum Kaupþings frá dómi.

Ástæða frávísunarinnar var sú að ekki var stefnt fyrir réttu varnarþingi.

Bolli segir að stjórnin sé enn að átta sig á málinu og þurfi að fara vel og vandlega yfir það með lögmönnum samtakanna. Ekki sé komin nein niðurstaða um framhaldið.

„Við vonumst til þess að það finnist einhver flötur á málinu sem gerir okkur kleift að halda því áfram,“ nefnir hann. Vilji samtakanna standi til þess að halda málinu til streitu, ef nokkur er kostur, en þó verði fyrst að gaumgæfa dóminn vel.

Samtökin kröfðust 902 milljóna króna í skaðabætur vegna fjártjóns af völdum markaðsmisnotkunar með hlutabréf í Kaupþingi. Stefndu þau fjórum fyrrum stjórnendum bankans, þeim Hreiðari Má Sig­urðssyni, Ingólfi Helga­syni, Magnúsi Guðmunds­syni og Sig­urði Ein­ars­syni sem og stærsta hluthafa bankans, Ólafi Ólafssyni.

Kaupþing.
Kaupþing. mbl.is/Ómar

Höfðað fyrir röngu varnarþingi

Málið var höfðað í umdæmi Héraðsdóms Vesturlands en þeir Hreiðar Már, Sigurður, Magnús og Ólafur afplánuðu þá dóm á Kvíabryggju.

Töldu forsvarsmenn samtakanna að höfða mætti málið fyrir Héraðsdómi Vesturlands þar sem mennirnir hefðu fasta búsetu á Kvíabryggju meðan þeir afplánuðu dóm, þó svo lögheimili þeirra væri skráð annars staðar. 

Dómarinn sagði hins vegar málið höfðað fyrir röngu varnarþingi. 

Auk þess hefði verið ranglega staðið að birtingu stefnunnar. Ekki hefði verið sýnt fram á hvers vegna fangavörður á Kvíabryggju tók við stefnu þeirra Hreiðars Más, Magnúsar og Ólafs, en Sigurði var sjálfum birt stefna á Kvíabryggju.

Var málinu því vísað frá dómi og samtökunum gert að greiða Hreiðari Má, Magnúsi, Ólafi og Sigurði hverjum fyrir sig 300 þúsund krónur í málskostnað.

Frétt mbl.is: Máli gegn Kaupþingsmönnum vísað frá

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert