Hryðjuverkamaður vann fyrir norræna stofnun múslima

Lögreglumenn í Brussel standa vörð. Osama Krayem er grunaður um …
Lögreglumenn í Brussel standa vörð. Osama Krayem er grunaður um aðild að hryðjuverkunum þar í mars. AFP

Osama Krayem, sem grunaður er um aðild að hryðjuverkunum í Brussel, vann fyrir Alrisalah-stofnunina á Norðurlöndunum. Stofnunin rekur meðal annars Stofnun múslima á Íslandi. Forsvarsmenn stofnunarinnar segja Krayem ekki hafa haft náin tengsl við hana, að því er Ríkisútvarpið greinir frá.

Kreyem var handtekinn í tengslum við árásirnar í Brussel þar sem íslamskir öfgamenn drápu 34 á Zavantem-flugvelli og á lestarstöð í borginni í nafni Ríkis íslams. Hann er 23 ára gamall sænskur ríkisborgari frá Malmö. Sænska ríkisútvarpið SVT greindi frá því í apríl að Krayem hefði unnið við byggingarframkvæmdir við leikskóla í Kaupmannahöfn árið 2013.

Í frétt SVT er haft eftir Hussein al-Daoudi, varaformanni Alrisalah á Norðurlöndunum og formanni Stofnunar múslima á Íslandi, að Krayem hafi ekki haft náin tengsl við stofnunina. Þegar hana vantaði verkamenn árið 2013 hafi hann unnið nokkra daga fyrir hana.

Frétt mbl.is: Sænskur öfgamaður bendlaður við árásirnar

Sjálfur segist Daoudi ekki hafa hitt Krayem. Hann hafi verið ráðinn í gegnum tengiliði stofnunarinnar sem komu henni í samband við verkamenn. Daoudi segist jafnframt fordæma Ríki íslams og stofnunin vinni með yfirvöldum gegn hryðjuverkasamtökunum.

Mbl.is náði ekki tali af Karim Askari, framkvæmdastjóra Stofnunar múslima á Íslandi, en RÚV hefur eftir honum að Krayem hafi aðeins unnið fyrir Alrisalah sem smiður. Krayem hafi ekki sótt mosku hjá stofnuninni og hún viti ekkert um hann í dag.

Frétt mbl.is: Losaði sig við sprengjuna í klósettið

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert