Gott sumar dregur úr yfirvinnu

Flugturninn var illa mannaður í dag sem olli seinkunum á …
Flugturninn var illa mannaður í dag sem olli seinkunum á flugi. Mynd/Delta Air Lines

Sigurjón Jónasson, formaður Félags flugumferðarstjóra, segir félagið hafa skilað öllum sínum gögnum til gerðardóms í gær. Formaður dómsins er Garðar Garðarsson, sá sami og var formaður gerðardóms sem úrskurðaði í kjaradeilu BHM og ríkisins á síðasta ári.

Nokkrar seinkanir urðu á millilandaflugi í morgun sökum manneklu flugumferðarstjóra. Sigurjón segir það hafa gengið illa að manna flugumferðarturninn og flugstjórnarmiðstöðina að undanförnu. Um vaktina í dag segir hann hana hafa verið undirmannaða til að byrja með og til viðbótar hafi einn flugumferðarstjóri forfallast.

„Yfirvinnan er ekki nógu vel borguð. Það er ekkert vaktaálag greitt fyrir yfirvinnu,“ segir Sigurjón, sem segir það vera hluta skýringarinnar hvers vegna erfitt sé að fá menn á vaktir. „Menn meta frítíma sinn á góðu sumri meira en svo.“

Yfirvinnukjörum flugumferðarstjóra var haldið óbreyttum í kjarasamningnum sem flugumferðarstjórar felldu á dögunum og segir Sigurjón það m.a. ástæðuna fyrir því hvernig atkvæðagreiðslan um samninginn fór. „Samningurinn lagðist misvel í menn eins og sást á niðurstöðunni. Mörgum þótti hækkunin of dýru verði keypt, þarna var takmörkun á verkfallsrétti og annað sem menn voru ekki sáttir við,“ bætir Sigurjón við.

Spurður hvort hann sé bjartsýnn á niðurstöðu gerðardóms segir hann ómögulegt að segja til um það. „Það verður bara að koma í ljós, maður er samt alltaf vongóður,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert