Hrærð yfir boðinu til Íslands

Hannes hefur falið meðlimum Tólfunnar að skipuleggja ferðina.
Hannes hefur falið meðlimum Tólfunnar að skipuleggja ferðina. mbl.is/Golli

„Þau eru greinilega mjög ánægð með þetta og ég hlakka til að heyra betur í þeim,“ segir Hannes Freyr Sigurðsson, sem á dögunum fékk þá hugmynd að gera eitthvað fallegt fyrir breskan stuðningsmann Íslands sem var stunginn í París á sunnudagskvöld. Fljótlega kom upp sú hugmynd að bjóða honum hingað til lands ásamt eiginkonu sinni, og lítur allt út fyrir að þau hjón muni þiggja boðið með þökkum.

Eiginkonan hrærð yfir boðinu

Eins og mbl.is hefur greint frá var maðurinn, sem er 25 ára gamall lögregluþjónn, staddur á bar í París að styðja íslenska liðið í leiknum á móti Frakklandi þegar hann var stunginn. Hann var fluttur á sjúkrahús þar sem hann þurfti að gangast undir stóra aðgerð, en hann er ekki í lífshættu. Að sögn Hannesar er hann þó enn á sjúkrahúsinu.

„Það er auðvitað svo stutt frá því að þessi árás var gerð á hann að þau eru enn að jafna sig. Hann er ennþá á sjúkrahúsi og eiginkona hans fékk auðvitað áfall við að verða vitni að þessu. Þetta er aðeins í bið núna á meðan þau ná sér,“ segir Hannes, en hann náði sambandi við tengilið hjónanna í gær.

„Ég fékk tölvupóst frá tengilið þeirra í gær, en hann hafði fengið tölvupóst sem ég sendi breska sendiráðinu í París. Þar sagði hann mér að hann hefði látið þau vita af þessu og að eiginkona mannsins hafi verið mjög hrærð yfir þessu,“ útskýrir hann. „Þau vildu fá að vera í friði á meðan þau jafna sig en ætla að vera í sambandi við okkur seinna.“

Þá segist Hannes einnig hafa heyrt af því að lögreglumenn sem staddir voru í Frakklandi fyrir hönd Bretlands á Evrópumótinu hafi verið mjög ánægðir að heyra af framtakinu.

Komin með flug, hótel, mat, akstur og skoðunarferðir

Forsagan er sú að Hann­es deildi frétt um at­vikið í face­book-­hópinn „Ferðagrúppa fyr­ir EM 2016“ og óskaði eft­ir til­lög­um um hvað hægt væri að gera fyr­ir mann­inn. Í kjölfarið fór hann á fullt að komast að nafni mannsins, svo hægt væri að hafa uppi á honum.

Viðbrögð létu ekki á sér standa og var fljótlega ákveðið að bjóða mann­in­um hingað til lands með eig­in­konu sinni á næsta heima­leik Íslands. Sá leik­ur fer fram 6. októ­ber nk. gegn Finn­landi. Nú þegar hef­ur verið boðin fram hót­elg­ist­ing fyr­ir hjón­in, matur á fínum veitingahúsum, flug og akst­ur til og frá flug­vell­in­um. Auk þess hafa Kynn­is­ferðir boðið upp á ferð fyr­ir hjón­in um landið að sögn Hann­es­ar. 

Hannes hefur sett meðlimi Tólfunnar inn í málið og mun fela þeim að skipuleggja ferðina fyrir hjónin. Sjálfur segist hann afar ánægður með viðbrögðin, sem hafi farið fram úr björtustu vonum. „Ég var ekkert að sækjast eftir einhverri athygli og er sjálfur enn að átta mig á því hversu stórt þetta varð á stuttum tíma,“ segir hann. „Þetta er bara part­ur af þess­ari miklu EM-gleði og sam­stöðu.“

Frétt mbl.is: Vilja bjóða stuðningsmanni til Íslands

Frétt mbl.is: Stuðningsmaður Íslands stunginn í París

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert