Sex af hverjum tíu farþegum seinkaði

Frá Keflavíkurflugvelli. Miklar seinkanir voru á áætlunarflugum flugfélaganna Icelandair, WOW …
Frá Keflavíkurflugvelli. Miklar seinkanir voru á áætlunarflugum flugfélaganna Icelandair, WOW air og easyJet í júní vegna verkfallsaðgerða flugumferðarstjóra. mbl.is/Árni Sæberg

Verkfallsaðgerðir flugumferðarstjóra höfðu mikil áhrif á stundvísi flugfélaganna Icelandair, WOW air og easyJet við áætlunarflug í júnímánuði. Dohop tók saman stundvísi flugfélaganna þriggja í mánuðinum sem leið. 

Seinkanir hjá flugfélögunum þremur voru töluvert meiri í júnímánuði en í mánuðunum á undan. Skoðun Dohop leiddi í ljós að 30 prósent meira var um seinkanir hjá flugfélögunum í júní en í mánuðinum á undan og áætla má að um sex af hverjum tíu farþegum hafi lent í seinkunum í júní samanborið við þrjá af tíu alla hina mánuði ársins. 

Icelandair fór í 35 prósentum skipta í loftið á réttum tíma og voru meðaltafirnar á áætlunarflugum félagsins rúmlega 36 mínútur. Hlutfall lendinga á réttum tíma var þó öllu hærra, eða 48 prósent, og meðaltafir við lendingu tæpar 28 mínútur.

Hjá WOW air var brottfararhlutfallið á réttum tíma 27 prósent og meðaltafir í mínútum talið voru rúmur klukkutími, eða tæpar 66 mínútur. Lendingarhlutfall á réttum tíma var 37 prósent og meðaltöf við lendingar því tæpar 55 mínútur.

easyJet fór í loftið í 38% skipta á réttum tíma og meðaltöf mánaðarins í mínútum talið voru 29 mínútur. Hlutfall lendinga á réttum tíma var 67% og meðaltöf mánaðarins tæpar 17 mínútur við lendingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert