Vísa sögusögnum RÚV á bug

Ýmis­húsið er í eigu Stofn­un­ar múslima.
Ýmis­húsið er í eigu Stofn­un­ar múslima. mbl.is/Árni Sæberg

Stofnun múslima á Íslandi vísar sögusögnum fréttastofu RÚV um tengingar við erlend hryðjuverkasamtök til föðurhúsanna og krefst afsökunarbeiðni frá RÚV fyrir ásakanir um tengsl samtakanna við Ríki íslams. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem lögmaður stofnunarinnar sendi á fjölmiðla í dag.

RÚV greindi frá því í gær að sænskur ríkisborgari, Osama Krayem, sem grunaður er um aðild að hryðjuverkunum í Brussel, hefði unnið fyrir Alrisalah-stofnunina á Norðurlöndunum. Sagði í fréttinni að stofnunin ræki m.a. Stofnun múslima á Íslandi.

„Tengingin átti að vera tilkomin vegna vinnu mannsins sem smiður fyrir Al-risalah samtökin í Svíþjóð. Af þessu tilefni vill Stofnunin taka það fram að Stofnunin er sjálfstæður lögaðili í rekstrarformi sjálfseignarstofnunar. Það form gerir það að verkum, að enginn á félagið, heldur er það rekið af stjórn þess. Engin eignatengsl eru milli Stofnunarinnar og annarra félaga. Það að sömu aðilar sitji í stjórn Stofnunarinnar og erlendra félaga í samskonar starfsemi, þ.e. trúar,- menningar- og æskulýðsstarfsemi, skapar ekki tengsl þess við hryðjuverkasamtök af neinu tagi, enda hefur Stofnunin aldrei stundað eða tengst slíkri starfsemi né neinni annarri ólöglegri starfsemi,“ segir í yfirlýsingunni.

Frétt mbl.is: Hryðjuverkamaður vann fyrir Norræna stofnun múslima

Þar kemur einnig fram að Krayem hafi starfað í stutta stund á vegum Al-risalah samtakanna í Svíþjóð. Hann hafi aldrei komið til Íslands og forvarsmönnum stofnunarinnar sé ekki kunnugt um að hann hafi tengst múslimum á Íslandi. „Þess ber að geta að umræddur maður starfaði síðar í tvö ár hjá hinu opinbera í sveitarfélaginu Malmö, þ.e. Malmö kommun. Auðsætt er að sveitarfélagið Malmö eða vinabæir þess um víða veröld geta ekki borið ábyrgð á því að starfsmenn þess velji að ganga til liðs við hryðjuverkasamtök enda sæta þau ekki, né heldur aðrir vinnuveitendur mannsins, gruggugum ásökunum um tengingar við hryðjuverkasamtök af þessum sökum.“

Þá ítrekar stofnunin að markmið hennar sé að vinna að uppbyggingu íslamskrar trúar og menningarheims á Íslandi með íslensk lög að leiðarljósi. „Stofnunin hefur ekki stutt, og mun aldrei styðja, ólögmætar aðgerðir eins og hryðjuverk, í neinum tilgangi. Þá mun Stofnunin ekki skaða Ísland, hagsmuni þess eða líf Íslendinga á neinn hátt. Jafnframt vill Stofnunin taka fram að hún fordæmir hryðjuverk í hvaða mynd sem er, og hvar sem þau eru framin.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert