Gerðardómur aflar gagna í deilunni

Garðar Garðarsson, formaður gerðardóms.
Garðar Garðarsson, formaður gerðardóms. Ljósmynd/Steinar H.

Garðar Garðarsson, hæstaréttarlögmaður og formaður gerðardóms í kjaradeilu flugumferðarstjóra og ISAVIA, segir að gerðardómi hafi borist greinargerðir beggja aðila en enn sé verið að safna gögnum.

Gerðardómur á að skila af sér niðurstöðu fyrir mánudaginn 18. júlí samkvæmt lögum um störf gerðardóms í kjaradeilunni. Spurður hvort hann telji gerðardóm þurfa allan þann tímaramma sem dómnum var gefinn segir Garðar ómögulegt að segja til um það á þessu stigi.

Garðar er þaulreyndur þegar kemur að störfum gerðardóms. Hann var formaður gerðardóms á síðasta ári í kjaradeilu BHM og eins upp úr aldamótum í sjómannadeilunni.

Hann kveður muninn á störfum dómsins í kjaradeilu flugumferðarstjóra núna og BHM í fyrra, vera að í tilfelli BHM hafi félögin verið 19 en nú sé það aðeins eitt. „Að því leytinu er það einfaldara enda er tíminn sem ætlaður er til vinnunnar mjög knappur,” segir Garðar.

Auk Garðars skipa gerðardóm þau Loftur Jóhannsson, tilnefndur af Félagi íslenskra flugumferðarstjóra, og Álfheiður Mjöll Sívertsen, tilnefnd af Samtökum atvinnulífsins. „Við erum búin að koma nokkrum sinnum saman og erum búin að hitta aðilana,” segir Garðar um störf dómsins fram til þessa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert